Tugir flokksmanna eiga eftir að ganga úr Framsóknarflokknum á næstunni að mati Halls Magnússonar ráðgjafa, sem starfaði um langt skeið innan flokksins áður en hann sagði sig úr honum í desember á síðasta ári.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lýst því yfir við fjölmiðla í dag að hann ætli að tilkynna á morgun hver pólitísk framtíð hans verði en eins og kunnugt er hefur hann meðal annars haft aðra afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu en forysta flokksins.
Hallur segir óánægju ákveðins hóps innan Framsóknarflokksins ekki aðeins hafa snúist um afstöðuna til Evrópusambandsins heldur spili fleiri mál inn í. Ekki síst sú skoðun að flokkurinn hafi í vaxandi mæli snúið baki við frjálslyndri hugmyndafræði.
Hallur segir að sú stefna sem samþykkt var á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins í apríl á þessu ári að hagsmunum Íslands væri best borgið utan ESB og síðan grein formanns flokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í Morgunblaðinu nýverið þess efnis að leggja ætti umsóknina um aðild sambandinu til hliðar hafi verið kornið sem fyllti mælinn fyrir marga.
Aðspurður hvort vænta megi þess að nýr stjórnmálaflokkur verði stofnaður á morgun eða næstu daga líkt og ýjað hefur verið að í sumum fjölmiðlum í dag segist Hallur ekki eiga von á því heldur verði stofnuð samtök með einhvers konar fyrirkomulagi á næstunni af þeim sem yfirgefa flokkinn sem síðar gæti þróast í stjórnmálaflokk en Hallur hefur verið í tengslum við þá umræðu sem hann segir eiga sér aðdraganda í það minnsta frá síðasta flokksþingi. Hallur segir marga í þeim hópi hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn.
Spurður hvort Guðmundur Steingrímsson væri á leið úr flokknum sagði Hallur það liggja í augum uppi.