Annar sakborninga í máli ákæruvaldsins á hendur tveimur mönnum sem ákærðir eru fyrir stórfellda líkamsárás og frelsissviptingu játaði fyrir dómi í morgun að hafa ráðist að fórnarlambinu í málinu. Hann neitaði að hafa svipt manninn frelsi og sagði hinn sakborninginn ekki hafa komið að máli.
Mennirnir tveir voru leiddir fyrir dómara í morgun. Skýrslutaka hófst á öðrum þeirra og játaði hann sök að einu leyti, þ.e. að hafa kýlt og sparkað í fórnarlambið. Mennirnir eru hins vegar ákærðir fyrir að hafa þriðjudaginn 11. maí og aðfaranótt 12. maí sl. svipt karlmann frelsi sínu, haldið honum nauðugum á heimili annars þeirra sem og í geymsluhúsnæði í eigu tengdaföður annars þeirra, misþyrmt honum og svívirt með margvíslegum hætti.
Annar mannanna er sagður foringi vélhjólasamtakanna Black Pistons en hinn meðlimur. Byrjað var að yfirheyra þann síðarnefnda, Davíð Frey Rúnarsson.
Sá sagði foringjann ekki hafa komið nálægt árásinni, þó svo hún hefði farið fram á heimili hans. Hann sagði fórnarlambið hafa farið sjálfviljugt með sér en Davíð sagðist hafa verið honum reiður sökum lygasagna um fíkniefnasölu og handrukkun, sem hann sagðist hafa staðið að í félagi við Davíð.
Davíð gat ekki skýrt áverka sem fundust á fórnarlambinu og virtust eftir vopn af ýmsu tagi, s.s. sverð og rafmagnssnúrur. Neitaði hann að hafa notað nokkur vopn við árásina.
Þegar hann var spurður hvort hann væri að verja foringja sinn neitaði Davíð því og þvertók jafnframt fyrir að sér hefði verið hótað vegna málsins.
Aðalmeðferðin heldur áfram.