Ekki náðist í öll vitni

Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari (t.v.) gengur inn í dómsal.
Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari (t.v.) gengur inn í dómsal. mbl.is

Aðalmeðferð yfir foringja og meðlimi vélhjólasamtakanna Black Pistons var fram haldið í morgun. Nokkur vitni komu fyrir dóminn en þar sem ekki náðist í þrjú var málinu frestað fram í næstu viku. Til stóð að klára málið í dag en ekki hefur náðst í þrjú vitni, þar á meðal tvö sem voru í íbúð foringjans, þar sem karlmanni um tvítugt voru veittir margvíslegir áverkar.

Mönnunum tveimur er gefið að sök að hafa haldið karlmanni fæddum árið 1989 nauðugum frá þriðjudagskvöldi, 11. maí sl., til hádegis næsta dags, þegar maðurinn slapp úr haldi þeirra. Samkvæmt ákæru var manninum misþyrmt alloft á þeim tíma, m.a. með þykkum tölvukapli, skrautsverði og kústskafti.

Í morgun komu fyrir dóminn lögreglumenn sem aðallega staðfestu skýrslur sínar, og lýstu aðkomu sinni þegar komið var á vettvang málsins, s.s. heimili foringjans, bílinn sem fórnarlambið var flutt í og iðnaðarhúsnæðið þar sem það var geymt yfir nótt.

Meðal annars kom fram, að allt það blóð sem fannst í íbúð foringjans var úr fórnarlambinu. Ekkert blóð fannst hins vegar í bílnum eða á þeim vopnum sem ákært er fyrir að nota, þ.e. rafmagnssnúru, belti og skrautsverði í slíðri. Þá hafi verið merki um blóðslettur á veggjum íbúðar foringjans.

Jafnframt kom fyrir dóminn lögreglumaður sem rannsakaði símnotkun og staðsetningu símtækja aðila málsins. Í vitnisburði hans kom fram að fórnarlambið hafði símtæki sitt undir höndum allt þriðjudagskvöldið, og hringdi til að mynda nokkrum sinnum í annan ákærða. Fórnarlambið bar sjálft í gær að síminn hefði verið tekinn af því snemma kvölds. Að öðru leyti voru þær staðsetningar sem áður höfðu komið fram í málinu staðfestar.

Þá kom fyrir dóminn læknir sem skoðaði fórnarlambið. Sagði hann áverka á líkama þess geta verið tilkomna eftir högg með rafmagnssnúru. Hann sagði manninn hafa verið hræddan og brugðist óeðlilega við hljóðum. Taldi hann þetta geta bent til áfalls. Einnig sagði hann að fórnarlambið hefði ekki leitað á Landspítalann aftur eftir árásina, þ.e. til eftirfylgni.

Einnig bar vitni nágranni fórnarlambsins og greindi frá því að tveir menn hefðu bankað upp á hjá sér. Sögðust þeir tengdir ákærðu í málinu og vera að leita að foreldrum fórnarlambsins til að gera því tilboð sem þeir gætu ekki hafnað. Skömmu eftir að þeir yfirgáfu heimili nágrannans hefðu nokkrir lögreglubílar verið komnir í götuna og mennirnir horfið á braut.

Er þetta í nokkru samræmi við framburð manns sem gaf skýrslu í gær en þá sagðist hann hafa bankað upp á í nokkrum húsum í leit að fórnarlambinu. Sagðist hann vera vinur þess og hinna ákærðu og hafa viljað athuga hvað gerst hefði. Neitaði hann að hafa rætt við nágrannann um tilboð sem hann hugðist gera foreldrum fórnarlambsins, þegar saksóknari spurði út í það. Hann gat litlar skýringar gefið á því hvers vegna hann vissi ekki nákvæmlega hvar vinur hans, þ.e. fórnarlambið, bjó.

Enn á eftir að taka skýrslu af þremur vitnum og í kjölfarið flytja saksóknari og verjendur ræður sínar. Aðalmeðferðin heldur áfram föstudaginn 9. september nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert