Bónus gagnrýnir vinnubrögð ASÍ vegna nýrrar verðkönnunar sem birtist í morgun. Bónus hefur ítrekað gert athugasemdir við vinnubrögð ASÍ, m.a. við að ekki séu teknir ódýrustu valkostir í hverjum vöruflokki hjá Bónus, þegar þeir eru sannarlega teknir hjá keppinautum Bónus, segir í tilkynningu sem fyrirtækið hefur sent frá sér.
„Dæmi um misræmi í vinnubrögðum ASÍ eru ódýrustu bananarnir, sem kosta 198 kr. kg í Bónus, en eru sagðir kosta 257 kr. kg. Leiðrétting á þessari einu rangfærslu gerir Bónus ódýrustu verslunina í umræddri könnun.
Einnig gagnrýnir Bónus að ASÍ skuli bera saman annars vegar hreint íslenskt ungnautahakk og hinsvegar 10% próteinbætt nautahakk og leggja vörurnar að jöfnu. Bónus selur ekki próteinbætt nautahakk, heldur einungis hreint ungnautahakk. Verulegur verðmunur er á þessum vörum. Ef hreint nautahakk væri hluti af verðkönnun ASÍ hjá öllum aðilum, munaði enn meira á Bónus og næstódýrasta aðilanum á markaði,“ segir ennfremur í tilkynningu frá Bónus.