57 sagt upp hjá Arion banka

Fimmtíu og sjö starfsmenn Arion banka hafa fengið afhent uppsagnarbréf. Þetta eru 38 starfsmenn í höfuðstöðvum og 19 á öðrum starfsstöðvum. Vinnumálastofnun hefur þegar verið tilkynnt um uppsagnirnar.

Arion banki segir, að uppsagnirnar nú séu liður í hagræðingarferli sem staðið hafi yfir frá stofnun bankans. Það er erfitt skref að þurfa að grípa til uppsagna en nauðsynlegt til að bregðast við aðstæðum. Ekki séu fyrirhugaðar frekari aðgerðir af þessu tagi.

Í tilkynningu frá Arion banka segir, að bankinn standi frammi fyrir ákveðnum kaflaskilum í starfsemi sinni. Annars vegar líði að því að vinnu við úrlausnarmál ljúki. Hins vegar hafi dregið hratt úr vinnu tengdri endurskipulagningu í ytra umhverfi sem og við rannsókn og uppgjör af ýmsu tagi er tengjast fortíðinni.

„Almennt má ljóst vera að rekstur íslenska fjármálakerfisins er of kostnaðarsamur. Fjöldi starfsfólks hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi er of mikill miðað við umfang kerfisins. Sú staðreynd á einnig við um Arion banka. Að auki eru ný verkefni, s.s. eftirspurn eftir nýjum lánum og fjárfestingar í lægð sem stendur. Þrátt fyrir að afkoma bankans hafi verið viðunandi síðastliðin misseri er stór hluti þess hagnaðar tilkominn vegna endurmats á lánabók á fyrirtækjasviði bankans. Arðsemi af reglulegri starfsemi er ekki ásættanleg til lengri tíma litið. Arion banki hefur styrkt stöðu sína á markaði frá stofnun bankans en engu að síður eru aðgerðirnar nú nauðsynlegar til að treysta stöðu bankans og samkeppnishæfni til framtíðar,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Fram kom í síðustu viku að hagnaður Arion banka nam 10,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 7,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert