„Þetta er ekki mál sem kemur upp einn, tveir og þrír. Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur J. Sigfússon elduðu grátt silfur saman í stjórnmálunum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur um þá deilu sem risin er upp á milli forsetans og ríkisstjórnarinnar vegna Icesave-málsins.
Guðni segir deiluna án fordæmis í sögu forsetaembættisins, allt frá lýðveldisstofnun 1944.
„Þeir eru engir vinir, forsetinn og fjármálaráðherra. Það kom mér samt á óvart að Ólafur Ragnar skyldi taka þennan slag. Ég hefði hefði haldið að forsetinn hefði meiri hag af því að segjast yfir svona orðaskipti hafinn.“
Hnakkrifust ekki opinberlega
Guðni segir aðspurður að þær orðahnippingar milli forseta og ríkisstjórnar sem nú eru gerðar að umtalsefni í fjölmiðlum hefðu verið óhugsandi í tíð fyrri forseta lýðveldisins.
„Ólafi Thors lá eflaust stundum þungur hugur til Sveins Björnssonar, svo dæmi sé tekið. Hermann Jónasson hafði alla tíð illan bifur á Ásgeiri Ásgeirssyni. En að þessir stjórnmálaleiðtogar, Hermann og Ólafur, færu að hnakkrífast við Svein eða Ásgeir, eða öfugt, var óhugsandi á sínum tíma.
Það hefur aldrei komið til í tíð fyrri forseta að upp kæmu opinberar harðvítugar deilur milli forseta og stjórnmálaleiðtoga.“
Spurður hvort Ólafur Ragnar hafi þegar breytt forsetaembættinu til frambúðar svarar Guðni því til að það skýrist af eftirmanni forsetans. Embættið hafi breyst meira í tíð Ólafs Ragnars en í tíð nokkurs forseta.
„Á það verður að líta að tíðarandinn hefur líka breyst,“ segir Guðni.
Öflugt mótframboð í fyrsta sinn?
Hvað snertir mögulegt mótframboð, sækist Ólafur Ragnar á annað borð eftir endurkjöri, telur Guðni ekki hægt að útiloka að brugðið verði út frá venju í þetta sinn.
Með því á Guðni við þá hefð að öflugur frambjóðandi fari ekki gegn sitjandi forseta sem sækist eftir endurkjöri. Í ljósi hrunsins og umræðu um þátt forsetans í útrásinni sé nú hins vegar möguleiki á því að til tíðinda dragi í þessu efni.