Stjórnvöld tryggi rekstur Kvikmyndaskólans

Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands eru fyrir utan Stjórnarráðsbygginguna.
Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands eru fyrir utan Stjórnarráðsbygginguna. mbl.is/Golli

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands skorar á stjórnvöld að ganga strax frá samningum við skólann sem tryggja rekstur hans og rekstrarhæfi til framtíðar. 

Í yfirlýsingu frá stjórn skólans segir, að Ríkisendurskoðun hafi engar athugasemdir gert við umsýslu fjármuna í rekstri Kvikmyndaskóla Íslands eins og fram hafi komið í bréfi frá embættinu dagsettu hinn 7. september 2011. „Það á því ekkert að vera því til fyrirstöðu að mennta- og menningarmálaráðuneytið gangi til samninga við KVÍ nú þegar," segir í  yfirlýsingunni.

Sáttanefnd með fulltrúa nemenda, kennara, starfsfólks og stjórnar skólans á fund með mennta- og menningarmálaráðherra í dag. Segir stjórnin að bundnar séu vonir við að þessi fundur verði skref í átt að því að samningar náist og skólahald geti hafist.

„Kvikmyndaiðnaðurinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegu ástandi nú á haustdögum þar sem 140 nemendur hafa ekki getað hafið skólastarf og 60 starfsmenn sem haft hafa lífsviðurværi af Kvikmyndaskólanum undanfarin ár hafa verið án launa mánuðum saman. Við skorum því enn á ný á stjórnvöld að draga það ekki að semja við skólann," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert