Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, fer þess á leit við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að hann skýri með hvaða hætti hann muni bregðast gegn meintri aðför fjármálamálaráðherra gegn forsetanum. Björn Valur spyr hvort forsetinn krefjist afsagnar fjármálaráðherra.
Björn Valur hefur ítrekað komið Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra til varnar á kjörtímabilinu og heldur því nú áfram með því að beina orðum sínum til Bessastaða í pistli á heimasíðu sinni.
„Forseti Íslands segist ekki munu sitja undir „aðför fjármálaráðherra“ að sér og forsetaembættinu lengur. Nú virðist enginn vita í hverju sú aðför er fólgin og forsetinn hefur ekki útskýrt það neitt frekar. En látum það liggja á milli hluta.
Hann segist ekki ætla að sitja undir þessu lengur, sem þýðir þá væntanlega að hann ætlar að bregðast við. En hvernig? Mun hann krefjast afsagnar fjármálaráðherra? Mun hann svipta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur umboði til áframhaldandi starfa?
Mun hann reyna að rjúfa þing, boða til kosninga eða fela stjórnarandstöðunni að mynda nýja ríkisstjórn? Mun hann skipa utanþingsstjórn? Hver verða viðbrögð forsetans fyrst hann mun ekki sitja lengur undir því sem enginn veit hvað er?
Þessu þarf forsetinn að svara – helst áður en hann grípur til aðgerða,“ skrifar Björn Valur.