Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, talaði um „forsetaræfilinn“ í umræðum á Alþingi í morgun, en hann átti þar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.
Í umræðum utan dagskrár spurði Vigdís Hauksdóttir alþingismaður Björn Val út í skrif hans á heimasíðu sinni, en þar velti hann fyrir sér hvernig forsetinn ætlaði að fylgja eftir orðum sínum um að hann muni ekki sitja undir aðför fjármálaráðherra að sér. Björn Valur spurði hvort forsetinn ætli að krefjast afsagnar fjármálaráðherrans eða svipta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur umboði sínu.
Í svari sínu við fyrirspurn Vígdísar sagði Björn Valur að þetta væru sínar vangaveltur. „Ég er ekki að hnýta í forsetaræfilinn með neinum hætti eða beina orðum mínum til hans,“ sagði þingmaðurinn og bætti við að menn þyrftu að velta fyrir sér samskiptum þingmanna og forsetans ef forsetinn gæti ekki sætt sig við skoðanir einstakra þingmanna.
Forseti Alþingis brást ekki við orðum Björns Vals, en í 78. gr. þingskarparlaga segir: „Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.“