Íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum, að sögn Guðmundar Gunnarssonar, fyrrverandi formanns Rafiðnaðarsambandsins.
Í pistli á vef sínum skrifar Guðmundur að launamönnum sé talin trú um að þeir hafi samningsrétt um launakjör, en hið rétt er að stjórnmálamenn fara með kjarasamninga eins og þeim sýnist. „Staðreyndin blasir við, íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir og það ár erum við með rauntölur, það sem gerðist eftir það fram til október 2008 var froða byggð upp með erlendu lánsfjármagni. Krónan var þá orðin 20% of hátt skráð og erlendur gjaldeyrir á útsölu.
Íslenskum launamönnum hafði tekist frá árinu 2000 til 2008, að ná um 13% kaupmáttaraukningu, en töpuðu henni allri við hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum og situr eftir skuldum vafinn,“ skrifar Guðmundur.
Danir féllu ekkert í kaupmætti við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæpum 6% það sem af er þessari öld. Auk þess halda þeir sínum eignum.
Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2,3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og halda líka eignum sínum.
Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld. Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið, skrifar Guðmundur og vísar til skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá árinu 2010 þar að lútandi.
„Þau 40 ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur verið til hefur það samið um liðlega 3.000% launahækkanir. Á sama tíma hefur danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% og býr samt við betri kaupmátt. Danskir rafiðnaðarmenn hafa auk þess ekki þurft að búa við stökkbreytingar skulda. Þeirra gjaldmiðill er tengdur evrunni. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónuna en ekkert virkar,“ skrifar Guðmundur.