Ábúandi á Stórólfsvelli borinn út

Verksmiðjuhúsin á Stórólfsvelli til vinstri á myndinni. Hekla er í …
Verksmiðjuhúsin á Stórólfsvelli til vinstri á myndinni. Hekla er í baksýn. www.mats.is

Héraðsdómur Suðurlands féllst í morgun á beiðni Héraðsnefndar Rangæinga um að bera skul félag, sem hefur verið með atvinnustarfsemi á Stórólfsvelli, út af jörðinni. Leigusamningur sem gerður var um landið rann út á síðasta ári en graskögglaverksmiðja var rekin þar um árabil.

Rangárvallasýsla eignaðist jörðina Stórólfshvol með afsali 6. júlí 1914. Árið 1960 leigði Sýslusjóður Rangárvallasýslu Sambandi íslenskra samvinnufélaga (SÍS) 400 hektara lands úr landi Stórólfshvols til 50 ára. Leigulandið var nefnt Stórólfsvöllur og í leigusamningi var tekið fram að landið sé leigt leigutaka til heymjölsvinnslu og hvers konar annarrar ræktunar og starfsemi í því sambandi.

SÍS stofnaði graskögglaverksmiðju á landinu en selt hana Landnámi ríkisins ásamt leiguréttindum árið 1970. Þá tók landbúnaðarráðuneytið við rekstrinum en seldi Stórólfi sf., síðar Stórólfi ehf., reksturinn og mannvirkin um tveimur áratugum síðar. Á jörðinni eru birgðaskemma, verksmiðja, skrifstofa, verkstæði, geymslubraggi og vélageymsla, samtals 2573 fermetrar ásamt lóðarleiguréttindum. Stórólfur rekur þarna  framleiðslu fyrir landbúnað og vinnslu afurða og sögðu forsvarsmenn félagsins fyrir dómi að árlega sé varið miklum fjármunum til viðhalds mannvirkja og til ræktunar á landinu.

Héraðsnefnd Rangæinga minnti Stórólf ehf. á það um mitt árið 2008 að leigusamningurinn rynni út í september 2010. Var tilkynnt um að landið yrði ekki leigt út eftir þann tíma. Stórólfur lýsti áhuga á að fá landið leigt áfram en viðræður hafa ekki leitt til niðurstöðu og því krafðist héraðsnefndin þess fyrir dómi að leigjandinn yrði borinn út af jörðinni. 

Héraðsdómur taldi ekki nokkurn vafa leika á því, að samkvæmt skýrum ákvæðum leigusamningsins hafi Stórólfur ehf. ekki haft landið á leigu lengur en til 24. september árið 2010. Leigusalinn hafi gert ábúanda grein fyrir því með rúmlega tveggja ára fyrirvara að leigutíminn rynni sitt skeið á enda  og að ekki yrði um að ræða áframhaldandi leigu. Ljóst sé að leigutíminn sé á enda runninn og gott betur og ábúandinn geti ekki byggt rétt til áframhaldandi veru á landinu á því að hann hafi landið á leigu.

Héraðsnefnd Rangæinga er því heimilt, samkvæmt niðurstöðu dómsins, að fá Stórólf ehf., ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinn út af jörðinni Stórólfshvol  og Stórólfsvelli með beinni aðfarargerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert