Löggæslustofnanir keyptu vörur af fjórum fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða náinna venslamanna þeirra fyrir samtals rúmlega 91 milljón króna samkvæmt nýrri ábendingu Ríkisendurskoðunar. Um er ræða tímabilið janúar 2008 til apríl 2011.
Í nær öllum tilvikum var um að ræða búnað vegna löggæslustarfa. Að mati Ríkisendurskoðunar fór hluti þessara viðskipta í bága við lög um opinber innkaup. Stofnunin brýnir fyrir löggæslustofnunum að virða ákvæði laganna.
Samkvæmt 20. gr. laganna ber að bjóða út öll kaup á vörum ef fjárhæðir viðskipta fara yfir tiltekin viðmiðunarmörk sem eru nú 6,2 milljónir króna. Ef fjárhæðir eru undir þessum mörkum ber samkvæmt 22. gr. að leita tilboða hjá sem flestum fyrirtækjum áður en kaup eru ákveðin.
Keypt af foreldrum lögreglumanns og eiginkonu annars
Á fyrrnefndu tímabili keypti embætti ríkislögreglustjóra (RLS) nokkrum sinnum vörur af fyrirtækinu Landstjörnunni ehf. en það er í eigu foreldra manns sem starfaði sem lögreglumaður þegar meirihluti viðskiptanna fór fram. Ekki var aflað tilboða frá öðrum fyrirtækjum áður en kaupin voru gerð en fjárhæðir voru undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu.
Einnig keypti RLS búnað af fyrirtækinu Trademark ehf., sem er í eigu eiginkonu lögreglumanns, fyrir 12,6 milljónir króna án þess að kaupin hefðu verið boðin út. RLS heldur því fram að ekki sé rétt að líta þessi viðskipti sem ein kaup heldur þrenn og að fjárhæðir hafi verið undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu í öllum tilvikum. Ríkisendurskoðun hafnar þessu.
Lögregluskóli ríkisins keypti búnað af Trademark ehf. fyrir samtals 12,7 milljónir króna í desember 2010. Hvorki var efnt til útboðs áður en kaupin voru gerð né aflað tilboða frá fleiri fyrirtækjum.
Samkvæmt lögreglulögum ber RLS að hafa umsjón með kaupum á ökutækjum, búnaði og fatnaði lögreglu. Í ábendingunni kemur fram að árið 2008 keyptu sjö löggæslustofnanir búnað af Landstjörnunni ehf. fyrir um 7 milljónir króna án þess að kaupin hefðu verið boðin út. Ríkisendurskoðun telur að RLS hefði átt að efna til útboðs vegna þessara viðskipta í samstarfi við Ríkiskaup.
Að mati Ríkisendurskoðunar þarf innanríkisráðuneytið að tryggja að löggæslustofnanir hafi sameiginlegan skilning á umsjónarhlutverki RLS og að því sé sinnt. Að auki þarf ráðuneytið að segja til um hvort það samrýmist störfum lögreglumanna að eiga og/eða starfa hjá fyrirtækjum sem lögreglan á í viðskiptum við. Þá telur Ríkisendurskoðun að löggæslustofnanir þurfi að taka verklag sitt við útboð og verðfyrirspurnir til endurskoðunar, segir í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun.