Slysavarnafélagið Landsbjörg segir, að það væri utan lögbundins hlutverks björgunarsveita að standa heiðursvörð við setningu Alþingis.
Þetta kemur fram í svari, sem samtökin skrifuðu á Facebook-síðu sína við fyrirspurn frá Frank Michelsen. Frank gerði þar að umtalsefni ummæli Ólínu Þorvarðardóttur, alþingismanns í síðdegisþætti Rásar 2 í gær um hvort ekki væri rétt að Landsbjörg gæfi út yfirlýsingu um að björgunarsveitir muni standa heiðursvörð við setningu Alþingis í stað lögreglumanna.
Í svarinu segir. „Björgunarsveitir vinna ávallt í umboði þeirra stjórnvalda sem lögum samkvæmt fara með yfirstjórn björgunar- og leitarmála á hverjum tíma. Í flestum tilvikum er um að ræða lögregluna eða Landhelgisgæsluna. Það er því ekki björgunarsveita að standa heiðursvörð við setningu Alþingis enda er það utan lögbundins hlutverks þeirra. Slysavarnafélagið Landsbjörg eru líka ópólitísk samtök sem taka ekki afstöðu til mála er snerta félagið ekki beint."
Facebook-síða Slysavarnafélagsins Landsbjargar