Vildi ráða kunningja sína

Skarphéðinn Berg Steinarsson.
Skarphéðinn Berg Steinarsson. mbl.is/ Brynjar Gauti

„Við hittum Birgi í vikunni og fórum yfir ýmis mál og það endaði með því að hann sendi okkur tölvupóst í morgun og sagði upp störfum," sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarmaður Iceland Express, í samtalið við Morgunblaðið í kvöld.

Eins og fram hefur komið lét Birgir Jónsson af störfum sem forstjóri Iceland Express eftir aðeins 10 daga í starfi. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem Birgir sendi frá sér í kvöld. Í yfirlýsingunni segir Birgir ástæðu uppsagnarinnar vera að þau skilyrði sem hann setti þegar hann tók starfinu hafi ekki verið virt.

Skarphéðinn segir að ágreiningurinn milli stjórnar Iceland Express og Birgis hafi varðað skipulagsmál hjá félaginu.

,,Hann vildi ganga mjög hart fram í því að breyta skipulaginu á fyrirtækinu; segja upp starfsmönnum sem hafa verið lengi að störfum hjá félaginu, sumir frá upphafi, og ráða inn fólk sem er honum tengt persónulega. Við gátum ekki fallist á það að þetta yrði gert með slíkum hraða. Í því liggur ágreiningurinn á milli stjórnar félagsins og Birgis. Við komum því með skýrum hætti til hans í gærkvöldi, sem varð til þess að hann sagði upp störfum í morgun og hefur ekki látið ná í sig síðan," sagði Skarphéðinn.

Ekki er ljóst á þessari stundu hver tekur við forstjórastöðunni.

Stjórn Iceland Express sendi frá sér yfirlýsingu nú á tólfta tímanum í kvöld, og segir þar að  í samkomulagi við Birgi, þegar hann tók við forstjórastöðinni, hafi ekki falist að honum yrði afhent eigendavald yfir félaginu.

„Það hvernig Birgir ákveður síðan að tilkynna um starfslok sín einhliða og án samráðs við stjórn félagsins, eftir að hann hafði staðfest skriflega fyrr í dag að reynt yrði að hafa samráð um það og ekkert færi frá honum fyrr en á sunnudag segir meira en mörg orð.

Stjórn Iceland Express lýsir yfir undrun sinni á því hvernig mál hafa þróast sérstaklega miðað við hvernig Birgir kynnti hugmyndir sínar í upphafi ráðningar um framtíð félagsins," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert