Rangfærslur í frétt NRK

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Kristinn Ingvarsson

Jóhannes Pétursson, framkvæmdastjóri Pípulagnaverktaka ehf, segir fréttaflutning norska ríkisútvarpsins um lúsarlaun íslenskra pípulagningamanna í byggingarvinnu í Noregi, rangan. Tímakaup þeirra hafi verið að lágmarki 2.450 krónur en ekki 1.100 krónur eins og fram kom í fréttinni.

Jóhannes segir að inni í þessari tölu sé svokölluð staðaruppbót en að auki fái mennirnir frítt fæði, húsnæði og ferðir. Lægst launaði verkamaðurinn hjá fyrirtækinu fái greiddar 1.800 krónur á tímann og því sé sú tala sem NRK nefnir algjörlega röng.

Í frétt NRK segir einnig að norska vinnueftirlitið telji að fyrirtækið hafi brotið á vinnumarkaðslögum og gengst Jóhannes við því. Þar hafi þó verið um misskilning að ræða.

„Þetta er rétt að því leyti að þegar við fórum af stað var okkur sagt af norskum bókurum að við mættum borga íslensk laun í sex mánuði en eftir það þyrftum við að borga norsk laun. En þetta átti ekki við rök að styðjast. Við fengum rangar upplýsingar frá sérfræðingum, að við töldum,“ segir Jóhannes.

Hann segir að starfsmenn fyrirtækisins muni fá mismuninn greiddan aftur í tímann en lágmarkslaun í Noregi fyrir iðnaðarmenn eru 159 krónur norskar, eða um 3.200 krónur íslenskar, á tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert