Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, telur skynsamlegt að nota Breiðafjarðarferjuna Baldur til að sigla milli lands og Eyja í vetur. Það liggi fyrir að Herjólfur geti ekki notað Landeyjahöfn fimm mánuði á ári vegna ölduhæðar.
Herjólfur var að koma úr slipp frá Danmörku og mun skipið næstu vikuna sigla til Þorlákshafnar vegna þess að vísbendingar eru um að dýpi í hafnarmynni Landeyjahafnar hafi minnkað það mikið að Herjólfur geti ekki siglt þar inn.
Elliði segir vera að koma æ betur í ljós að Herjólfur henti ekki til siglinga í Landeyjahöfn yfir vetrarmánuðina. Hann geti ekki siglt inn í höfnina þegar ölduhæð sé meiri en 2 metrar, en það þýði að fella þurfi niður um 40% ferða yfir vetrarmánuðina.
Meðan Herjólfur var í slipp leysti Breiðafjarðarferjan Baldur hann af. Elliði segir að hann geti siglt í Landeyjahöfn í 3,5 metra ölduhæð og henti því ágætlega til þessara verkefna. Baldur sinni mikilvægum siglingum á Breiðafirði, en eigendur ferjunnar hafi sagt að þeir gætu útvegað annað skip til siglinga á Breiðafirði ef áhugi væri á að fá Baldur til að sinna siglingum til Eyja.
Hver ferð til og frá Þorlákshöfn tekur 6 klukkustundir en klukkutíma í Landeyjahöfn. Elliði segir að það kosti 220 milljónir á fimm mánuðum að sigla til Þorlákshafnar í stað Landeyjahafnar. Inn í þessari upphæð er kostnaður við olíu og kostnaður við meiri mönnun um borð. Ekki sé hins vegar tekið tillit til að farþegafjöldi sé miklu meiri þegar siglt sé í Landeyjahöfn.
„Þetta mál snýst ekki bara um höfnin heldur líka skipið,“ segir Elliði. Hann bendir á að samkvæmt nýjum reglum um farþegaflutninga í Evrópu verði ekki hægt að nota Herjólf eftir 2015.