Fundu skothylki við þinghúsið

Austurvöllur í gærkvöldi.
Austurvöllur í gærkvöldi. mbl.is/Júlíus

Tvö skothylki fundust í morgun fyrir framan alþingishúsið. Starfsmenn sem voru að þrífa húsið eftir mótmælin í gær fundu þau um kl. 10 í morgun. Bæði hylkin voru með skotunum í.  Lögreglan og forseti Alþingis líta málið alvarlegum augum.

Þorsteinn Pálmarsson, framkvæmdastjóri hreinsunarfyrirtækisins Allt-Af, segir í samtali við mbl.is að skothylkin hafi fundist um kl. 10 í morgun fyrir framan gamla aðalinngang þinghússins. Þeim hafi í framhaldinu verið komið í hendur í þingvarða. Þeir höfðu samband við lögregluna sem sótti skotin.

Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að skotin séu smá, eða 22. kalíbera, og að þau hafi verið heil. Þau passi t.d. í skammbyssur eða litla riffla. Þá segir hann að það sé ómögulegt að segja nokkuð um það hvað þau hafi legið þarna lengi. Það sé hins vegar alvarlegt mál að skothylki liggi á glámbekk.

„Um vörslu skotvopna og skotfæra gilda ákveðnar reglur og þær eru mjög strangar hér á landi. Þannig að þetta er ekki forsvaranleg meðferð að skilja þetta eftir á glámbekk,“ segir Hörður. Hins vegar sé lögreglan engu nær um hver hafi skilið skothylkin eftir.

„Okkur varð illa við“

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, telur málið vera grafalvarlegt. „Auðvitað varð okkur illa við og þetta er það sem lögreglan verður að taka á, þegar verið er að beita ofbeldi hvar sem er í samfélaginu. Sérstaklega hér við löggjafarsamkunduna þá verða þeir að rannsaka það og taka á því,“ segir Ásta.

Ekkert sé hægt að fullyrða en ljóst sé að skothylkin finnist við hreingerningu eftir mótmælin í gærkvöldi. Aðspurð segir hún engin fordæmi fyrir því að skothylki finnist við húsið. „Nei, það eru engin fordæmi fyrir því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka