Primera Air aftur til Íslands

Primera Air
Primera Air

Primera Air mun á næsta ári flytja aftur flugvél til Íslands, og mun félagið því bjóða flug til og frá Keflavík næsta sumar.  Þegar hefur verið ákveðið flug til þriggja áfangastaða og er stefnt að fyrsta fluginu þann 22. maí 2012. 

Samkvæmt áætlun verður flogið að minnsta kosti fram til 19.september, 2012.  Flogið verður vikulega til Billund í Danmörku, Malaga á Spáni og til Tenerife á Kanaríeyjum.  Til flugsins verða notaðar Boeing 737-800 flugvélar félagsins.  Flug til fleiri áfangastaða og yfir lengra tímabil er til frekari skoðunar, segir í tilkynningu.

Þegar hefur verið samið við ferðaskrifstofuna Heimsferðir og mun ferðaskrifstofan nýta þessi flug til uppbyggingar á hluta af ferðum sínum næsta sumar.  Primera Air mun einnig bjóða flugsæti til þessara áfangastaða beint til viðskiptavina.  Sölukerfi flugfélagsins verður opnað fyrir sölu á sætum í lok nóvember n.k.

Primera Air rekur 6 nýlegar Boeing flugvélar og  flytur árlega um 800.000 farþega frá stærstu borgum í Skandinavíu til um 55 áfangastaða í 25 löndum.  Primera Air er hluti af Primera Travel Group, sem er samstæða sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu og er að mestu í eigu Andra Más Ingólfssonar, segir í tilkynningu.

Primera Travel Group á og rekur Primera Air auk ferðaskrifstofa á Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka