Samskip í mál gegn gamla Eimskipi

Eitt skipa Samskipa, Helgafell, leggst að bryggju.
Eitt skipa Samskipa, Helgafell, leggst að bryggju. mbl.is/Eggert

Samskip hafa birt félaginu A1988 hf., áður Hf. Eimskipafélag Íslands, stefnu og krafist þess að félagið verði dæmt til að greiða skaðabætur vegna ólöglegrar atlögu að Samskipum á flutningamörkuðum á árunum 1999 til 2002. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.

Í tilkynningu frá Samskipum segir að málið sé höfðað með vísan til úrskurðar samkeppnisyfirvalda frá árinu 2008 um víðtæk lögbrot Eimskips sem öll hafi miðað að því að hrekja Samskip af sjóflutningamörkuðum milli Íslands og útlanda. Brotin hafi verið svo umfangsmikil og alvarleg að ekki komi annað til greina en að láta reyna á rétt brotaþolans, þ.e. Samskipa, til skaðabóta fyrir dómstólum.

Telja Samskip að heildartjón félagsins, samkvæmt ýtrustu kröfum, sé metið á tæplega 3,7 milljarða króna. Stjórn Samskipa hefur ákveðið að bætur, sem félaginu kunna að verða greiddar í þessu máli, renni til góðgerðarmála að frádregnum kostnaði við málareksturinn. A1988 hf. hefur farið í gegnum nauðasamninga þar sem kröfuhafar fengu greiddar um 12% upp í kröfur og endanlegar heimtur Samskipa kunna að taka mið af því.

Forsaga málsins, í stuttu máli, er sú að Samskip sendu samkeppnisyfirvöldum á sínum tíma kvörtun vegna misbeitingar markaðsráðandi stöðu Eimskips á markaði farmflutninga milli Íslands og Evrópu annars vegar og milli Íslands og Norður-Ameríku hins vegar. Samkeppnisyfirvöld rannsökuðu málið og komust að þeirri niðurstöðu að Eimskip hefði reynt að hrekja Samskip af flutningsmarkaði og útrýma þannig samkeppni.

Eimskipi var gert að greiða sekt upp á 310 milljónir króna en sektarupphæðin var síðan lækkuð í 230 milljónir. Eimskip undi úrskurðinum og tilheyrandi sektargreiðslu, þeirri hæstu sem um gat á þeim tíma hérlendis vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.-, segir í tilkynningu Samskipa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert