Segja má að lykilvitni í Black Pistons-málinu svonefnda sé 17 ára strákur sem ákærður var fyrir þátt sinn í miðri aðalmeðferð. Tekin var skýrsla af honum í morgun og þó svo hann neiti sök styður framburður hans að mörgu leyti framburð fórnarlambsins um atvik málsins. Aðalmeðferð heldur áfram eftir hádegið.
Við upphaf dómþings var útlit fyrir að enn þyrfti að fresta málinu þar sem Brynjar Logi Barkarson, sá er síðar var ákærður, var ekki mættur á réttum tíma. Verjandi hans reyndi að ná í hann en slökkt var á símanum. Tekið var hlé og þegar reynt var aftur svaraði Brynjar og sagðist vera á leiðinni. Léttir ákæruvaldsins, verjenda og dómara var auðséður.
Dagurinn hófst hins vegar á því að hinir ákærðu í málinu, Ríkharð Júlíus Ríkharðsson og Davíð Freyr Rúnarsson, gáfu skýrslu að nýju. Þeir sitja enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins og komu því í fylgd fangavarða.
Ríkharð Júlíus og Davíð Freyr eru ákærðir fyrir að svipta ungan mann frelsi sínu og ráðast ítrekað á hann á um hálfum sólarhring í maí síðastliðnum, eða þar til fórnarlambið slapp frá þeim. Ríkharð er sagður foringi vélhjólasamtakanna Black Pistons og Davíð Freyr meðlimur. Ungi maðurinn hefur haldið því fram að ástæðan sem honum var gefin fyrir ofbeldinu var sú að hann hefði svikið þá. Hann kannast hins vegar ekki við það. Með svikunum hefði stofnast til skuldar upp á tíu milljónir sem hann átti að greiða, m.a. með því að stela flatskjáum og svíkja út vörur.
Báðir neituðu þeir sök hvað varðaði framhaldsákæruna og könnuðust ekki við þátt Barkar Loga í málinu. Að öðru leyti vísuðu þeir til fyrri skýrslu. Að því loknu yfirgáfu þeir réttarsalinn.
Áður en kom að Brynjari Loga gaf fórnarlambið í málinu skýrslu að nýju og skýrði frá því hvers vegna framburður þess hafi breyst frá fyrri skýrslutöku fyrir dómi. Eftir að hlé var gert á aðalmeðferðinni fór maðurinn nefnilega til lögreglu og upplýsti um þátt þriðja mannsins, Brynjars. Var því gefin út framhaldsákæra.
Ungi maðurinn sagði að Brynjar hefði verið vitni að ofbeldi á heimili Ríkharðs að Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Hann hafi ekki tekið þátt í því en ekki gert neitt til að stöðva það. Þá hafi Brynjar og frændi Brynjars farið með þeim Davíð að Eggertsgötu þar sem Davíð hitti barnsmóður sína. Þeir hafi beðið í bílnum á meðan en Brynjar svo fengið leyfi til að aka frænda sínum upp í Grafarholt. Ungi maðurinn hafi sjálfur ekið bílnum þar sem Brynjar hafi ekki verið kominn með ökuréttindi.
Þá hafi síðar um kvöldið verið ekið með fórnarlambið í iðnaðarhúsnæði í Dugguvogi þar sem það átti að vera yfir nóttina. Skýrði maðurinn frá því að Brynjar hefði einnig verið þar um nóttina og gætt þess að hann myndi ekki flýja. Þeir hafi hins vegar rætt saman um það hvernig hann kæmist út úr þessu klandri.
Þegar maðurinn var spurður að því hvers vegna hann hafi ekki sagt frá þætti Brynjars fyrst og ekki minnst á hann áður í skýrslutöku sagði hann Brynjar hafa átt erfitt uppdráttar og þurft að þola ýmislegt. Hann hafi sjálfur skotið yfir hann skjólshúsi þegar honum var kastað á dyr og gefið honum að borða. Þá eigi hann mun ógnvænlegri bræður en Ríkharð og Davíð eru.
Þegar hann var spurður nánar út í þetta af verjendum sagði maðurinn: „Mér þótti vænt um þennan dreng og miðað vi það sem ég sá var þetta ekki það sem hann vildi gera.“ Spurður hvort hann hafi sagt rangt frá til að vernda Brynjar játaði hann það. „En svo á endanum þótti mér það óréttlátt gagnvart öllu og mér fannst ég bera skylda til að segja satt og rétt frá.“
Brynjar Logi kom svo fyrir dómara. Hann játaði að hafa verið í íbúð Ríkharðs á sama tíma og Ríkharð, Davíð og fórnarlambið. Saksóknari spurði hvort hann hafi séð samskipti þeirra á milli. „Já, þau voru bara rosalega eðlileg,“ sagði Brynjar og hafnaði því algjörlega að einhverjar barsmíðar hafi farið fram. Eftir að borinn var undir hann framburður hjá lögreglu þar sem hann sagðist hafa séð Davíð slá fórnarlambið dró hann frásögn sína örlítið til baka og sagði rétt að hann hefði séð Davíð slá hann með flötum lófa, einu sinni.
Þá staðfesti Brynjar þær bílferðir sem fórnarlambið bar um að farnar voru. Hann kannaðist hins vegar ekki við að frændinn hefði verið með í för. Hins vegar hefðu þeir farið upp í Grafarholt og hitt téðan frænda.
Hann sagði einnig að fórnarlambið hefði getað farið burtu hvenær sem hann vildi og hann hafi boðið honum að fara út úr bílnum en einnig í Dugguvogi þar sem þeir voru báðir. Þráspurður að því hvers vegna þeir voru í Dugguvogi svaraði Brynjar ávallt með spurningu: „Máttum við ekki vera þar?“ Síðar þegar verjandi leiddi hann áfram varð úr að Davíð hafði ætla að skreppa í nokkrar mínútur og skutlað þeim þangað en mínúturnar orðið að klukkutímum.
Brynjar sagðist aldrei hafa tekið við fyrirmælum frá Davíð eða Ríkharði. Hann játaði þó að hafa sagt við fórnarlambið að hann lenti í vandræðum ef það færi úr Dugguvoginum. Hann gat ekki skýrt það betur. „Ég veit það ekki. Þá væri verið að troða mér ofan í skít sem hann er í,“ sagði Brynjar og gat ekki lýst því betur þegar dómari bað um það. Hann sagði þó síðar að það tengdist Ríkharð og Davíð, en hann vildi ekki hnýsast í þeim málum og vissi því ekki um hvað málið snerist.
Í máli Brynjars kom fram að hann hafi litið á unga manninn sem vin sinn og var hann afar ósáttur að vera bendlaður við málið. Þegar saksóknari sagði að ungi maðurinn hefði sagt fyrir dómi að Brynjar hefði séð ofbeldið sagði hann: „Sagði hann það, djöfulsins fáviti. Ég sá það ekki og hefði klárlega munað eftir því.“
Einnig kom fyrir dóminn umræddur frændi en hann sagðist ekki hafa verið um borð í bílnum eða farið neitt. Hins vegar hafi Brynjar hitt hann í stutta stund í Grafarholti.
Eftir hádegið heldur saksóknari svo ræðu sína sem og verjendur og verður að því loknu málið lagt í dóm. Verður svo dómur kveðinn upp eftir nokkrar vikur.