16 ára fangelsi

Gunnar Rúnar Sigurþórsson.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson.

Hæstiréttur dæmdi í dag 24 ára gamlan karlmann, Gunnar Rúnar Sigurþórsson, í 16 ára fangelsi fyrir að verða Hannesi Þór Helgasyni að bana í ágúst á síðasta ári. Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar Rúnar væri ósakhæfur og skyldi sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Fjölskylda Hannesar Þórs var í dómsal Hæstaréttar og heyrðist klapp  þegar dómurinn var kveðinn upp.

Gunnar Rúnar var ákærður fyrir að hafa veist að Hannesi á heimili hans og banað með því að stinga hann ítrekað í brjóst, bak og hendur með hnífi. Gekk hnífurinn meðal annars í hjarta, lungu og nýra. Hann játaði fyrir lögreglu í september 2010 að hafa orðið Hannesi að bana.

Að mati saksóknara hafði Gunnar fulla stjórn á aðstæðum, þaulskipulagði morðið og hélt sig við skipulagið eftir verknaðinn. Hann hefði verið yfirvegaður og rólegur allt þar til hann þurfti að játa verknaðinn, en það hefði komið til vegna mistaka hans sjálfs, s.s. þar sem blóð slettist á skó hans og hann losaði sig ekki við þá og skildi eftir skófar á vettvangi. Ákæruvaldið fór fram á 16 ára fangelsi.

Verjandi Gunnars Rúnars, Guðrún Sesselja Arnardóttir, krafðist hins vegar sýknu og byggði kröfuna á grundvelli 15. gr. almennra hegningarlaga en í henni segir að „[þ]eim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum“.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að ljóst sé af fyrirliggjandi matsgerðum geðlækna að hugarheimur Gunnars Rúnars sé mjög sjúkur og er ekkert hafi fram komið sem geti réttlætt það að litið verði fram hjá áliti þriggja geðlækna. "Verður að telja vafalaust að [Gunnar Rúnar] hafi sökum geðveiki (geðrofs) verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Ákærði telst því ósakhæfur og ber að sýkna hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu," sagði í niðurstöðum dómsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert