Vin, athvarf Rauða krossins við Hverfisgötu, hlaut í gær Hvatningarverðlaun Geðhjálpar 2011. Í umsögn dómnefndar segir að verðlaunin séu veitt til að styðja þann málstað „að athvarfið megi enn um ókomin ár halda farsælu starfi sínu áfram sem hefur verið fjöldamörgum notendum nauðsyn og ómetanlegt í vegferð sinni að bata.“
Lokun Vinjar vofir nú yfir, en stjórn Rauða krossins ákvað fyrr á árinu að starfsemi yrði hætt í lok mars 2012. Fjórir starfsmenn vinna á athvarfinu og þangað koma reglulega mörg hundruð einstaklingar. Í yfirlýsingu frá Geðhjálp kemur að samtökin harmi þá ákvörðun að hætta rekstri Vinjar og skora á Rauða kross Íslands, Reykjavíkurborg og ara opinbera aðila að leita úrræða til að starfsemin megi áfram lifa.
„Margir geðfatlaðir eiga afar rýrt félagslegt bakland og kemur Vin í stað stórfjölskyldu í hugum margra. Þar sækir samheldinn hópur fólks og hefur gert í fjölda ára. Í boði eru fjölbreytt úrræði sem hafa öðlast virðingu innan geðheilbrigðiskerfisns og sem eru hluti af daglegu lífi margra. Hætt er við að veikindi fólks er þar sækir stuðnings versni ef kemur að lokun athvarfsins. Má þá búast við endurinnlögnum á geðdeildir LSH í kjölfarið sem afleiðingu þessa, sjúklingum til þjáninga og samfélaginu til kostnaðar og minnkunar. Eins myndu lífsskilyrði og ánægja fólks minnka til muna ef til lokunnar kæmi og er starfsfólk og félagar Geðhjálpar til vitnis um það.”