Rökviss og vel meðvitaður

Kafarar lögreglunnar leita í Hafnarfjarðarhöfn að hníf sem Gunnar Rúnar …
Kafarar lögreglunnar leita í Hafnarfjarðarhöfn að hníf sem Gunnar Rúnar kastaði í sjóinn. mbl.is/Júlíus

Í vottorði yfirlæknis á réttar- og öryggisdeildinni á Sogni, þar sem Gunnar Rúnar Sigurþórsson hefur verið vistaður undanfarin misseri, segir að Gunnar Rúnar sé með vissa þráhyggjuþætti, stífur á sinni meiningu og eigi erfitt með að aðlagast vissum reglum. Hann sé rökviss og vel meðvitaður um hvað hann vilji og hvað hann ætli sér.

Hæstiréttur dæmdi Gunnar Rúnar í dag í 16 ára fangelsi fyrir að bana Hannesi Þór Helgasyni í ágúst í fyrra. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar Rúnar væri ósakhæfur.

Í dómi Hæstaréttar er vitnað í vottorðið þar sem kemur fram mat yfirlæknisins  auk þess sem þar er vitnað til mats sálfræðings og annars geðlæknis sem átt hafa viðtöl við Gunnar Rúnar. Í lok vottorðsins er að finna samantekt á ástandi Gunnars Rúnars og segir þar meðal annars:

„Eftir 9½ mánuð á Sogni hefur ekki tekist að fá fram nokkru sinni ranghugmyndir, ofskynjanir, hugsanatruflanir eða merki um brenglaða raunveruleikaskynjun. Einkenni ástarsýki finnast ekki nú. Gunnar Rúnar hefur sterk merki persónuleikaröskunar. Gunnar Rúnar er með vissa þráhyggjuþætti, stífur á sinni meiningu og á erfitt með að aðlagast vissum reglum. Hann er rökviss og vel meðvitaður um hvað hann vill og hvað hann ætlar sér. Athygli vekur hversu fljótt ást hans til D hvarf, en slíkt er yfirleitt á skjön við raunverulega ástarsýki (erotomaniu), slíkt hverfur yfirleitt aldrei nema með lyfjameðferð eða annarri mjög langvarandi meðferð ... Ekki er hægt að sjá enn þörf á neinum geðlyfjum ... Erfitt er að meta framtíðarhorfur Gunnars Rúnars. Hann er eins og að ofan getur ekki með nú formlegan geðsjúkdóm í þess orðs vanalegu merkingu. Hann hefur hins vegar greinilega persónuleikaveilu og á erfitt með ýmsar hugsanir (þráhyggju, óskhyggju, forboðnar hugsanir) sem þegar hafa leitt hann í mikla ógæfu ... Framtíðarspá hans er ... bjartari en margra annarra sakamanna vegna þess að hann hefur ekki sögu um misnotkun áfengis, eða eiturlyfja. Hann er ágætlega gefinn og hafði áður en atburðurinn átti sér stað verið kominn í þokkalega góða stöðu félagslega og atvinnulega. Hann á góða fjölskyldu sem styður hann dyggilega.“

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert