Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kvaðst í ræðu á málþingi um framtíðarskipan dómstóla vera fylgjandi því að komið verði á millidómsstigi. Það yrði þó að gaumgæfa og myndi ráðast af fjárhagsstöðu því ljóst væri að því fylgdi aukinn kostnaður.
Innanríkisráðherra gat í upphafi máls síns um þá hornsteina lýðveldisins sem dómstólar væru og minnti á að bæði löggjafarvald og hann sem hluti framkvæmdavalds hefðu hlutverki að gegna varðandi lagaramma og starfsumhverfi dómstóla. Þá sagði hann dómstólaráð gegna lykilhlutverki varðandi héraðsdóma sem áður hefði verið verkefni ráðuneytis dómsmála. Kvaðst hann velta því fyrir sér hvort yfirvöld hefðu velt nógu mikið fyrir sér þróun í hlutverki ráðsins.
Ráðherra sagði að undanfarið hefði farið fram á vegum ráðuneytisins nokkur umfjöllun um skipan dómskerfisins, meðal annars komið fram skýrsla árið 2008 þar sem lagt væri til að komið yrði á millidómstigi í sakamálum þar sem fram færi sönnunarfærsla á nýjan leik og starfshópur sem hann hefði skipað hefði snemmsumars skilað því áliti að full rök væru fyrir stofnun millidómstigs.
Ráðherra sagði ráðuneytið vilja eiga frumkvæði að því að taka til skoðunar allt dómskerfið og móta stefnu til framtíðar í samstarfi við dómskerfið og kvaðst hann vilja íhuga hvort útvíkka ætti hlutverk dómstólaráðs.