Hugsanlega fleiri byssur

Lögreglan leitaði við hús í Vesturbæ Reykjavíkur í dag.
Lögreglan leitaði við hús í Vesturbæ Reykjavíkur í dag. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir hugsanlegt að mennirnir sem rændu úraverslunina Michelsen í morgun hafi haft fleiri skotvopn undir höndum en byssurnar tvær sem fundust eftir ránið og reyndust vera eftirlíkingar.

Í hádegisfréttum Rúv var haft eftir vitni úr nágrenni verslunarinnar í morgun að heyrst hefði skothvellur á meðan ræningjarnir voru enn á staðnum. Lögreglan kannast ekki við þennan vitnisburð og segist ekki geta staðfest að rétt sé. Ekki liggi heldur ljóst fyrir hvort ræningjarnir, sem voru þrír, hafi aðeins haft tvær byssur á lofti. Ekki sé því hægt að útiloka að þeir hafi einnig haft raunverulegt skotvopn meðferðis.

Leit stendur enn yfir að ræningjunum sem komust undan með umtalvert þýfi. Hefur lögregla m.a. verið að störfum í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem leitað var í íbúðarhúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert