Andlát: Páll Hersteinsson

Páll Hersteinsson.
Páll Hersteinsson.

Páll Hersteinsson prófessor lést á hjartadeild Landspítala við Hringbraut 13. október 2011. Páll fæddist í Reykjavík 22. mars 1951. Hans sérfræðisvið var vistfræði spendýra.

Hann var sonur hjónanna Margrétar Ásgeirsdóttur húsmóður, f. 27. janúar 1920 og Hersteins Pálssonar ritstjóra f. 31. október 1916, d. 21. febrúar 2005. Systir Páls er Inga Hersteinsdóttir, verkfræðingur, f. 8. janúar 1947.

Páll var kvæntur Ástríði Pálsdóttur sameindalíffræðingi, f. 2. apríl 1948 í Reykjavík. Hún lifir mann sinn. Synir þeirra eru Hersteinn Pálsson rafmagnsverkfræðingur og Páll Ragnar Pálsson tölvunarverkfræðingur.

Páll lauk B.Sc. (Honours) prófi frá Lífeðlisfræðideild Háskólans í Dundee í Skotlandi 1975 og doktorsprófi frá Dýrafræðideild Oxford-háskóla 1984. Doktorsverkefni Páls fjallaði um atferði og vistfræði íslenska melrakkans. Hann var veiðistjóri 1985-1995 en þá var hann ráðinn prófessor við Líffræðiskor Háskóla Íslands (nú Líf- og umhverfisvísindadeild) og gegndi því starfi til dauðadags. Páll var afkastamikill fræðimaður og eftir hann liggur fjöldi fræðigreina í íslenskum og erlendum tímaritum. Hann var ásamt öðrum ritstjóri fræðibóka um íslensk spendýr og um Þingvallavatn, en sú bók kom út bæði á íslensku og ensku. Eftir hann liggur einnig bók um dvöl hans við refarannsóknir í Ófeigsfirði, smásagnasafn, gamanleikrit og myndabók með ítarlegri frásögn af ferli refarannsókna á Hornströndum.

Auk starfa sinna sem prófessor sinnti Páll mörgum opinberum störfum í þágu hins opinbera, háskóla, fagtímarita og fagfélaga, bæði hérlendis og erlendis. Hann var virtur vísindamaður á alþjóðavísu og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert