Vísar bakpoki á ræningja?

Myndirnar sem lögreglan hefur birt.
Myndirnar sem lögreglan hefur birt.

Meðal ástæðna þess, að lögreglan hefur sent frá sér myndir af manni vegna ráns, er að hann er með hvítan bakpoka.

Samkvæmt heimildum mbl.is var einn þriggja manna, sem rændu úraverslun í miðborg Reykjavíkur í gær,  með samskonar bakpoka á myndum, sem náðust á eftirlitsmyndavélar í versluninni.

Lögreglan sendi í morgun frá sér myndir, sem teknar voru með eftirlitsmyndavélum á Vegamótastíg í gær, skömmu áður en rán var framið í úraverslun Franks Micelsens. Óskar lögreglan eftir upplýsingum frá þeim sem þekkja manninn á myndunum.

Vegna málsins er óskað sérstaklega eftir vitnum að grunsamlegum mannaferðum á Vegamótastíg frá kl. 10 - 10:30 í gær. Þá eru þeir sem þekkja manninn á meðfylgjandi myndum, eða vita hvar hann er að finna, vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 eða senda upplýsingar á netfangið abending@lrh.is

Frank Michelsen úrsmiður hefur sent frá sér tilkynningu um að þeir sem veitt geta upplýsingar sem leiða til þess að ránið upplýsist og að þýfið komi fram fái greidda eina milljón króna fyrir upplýsingarnar.

Ræningjarnir komust undan með umtalsvert magn af þýfi, svo sem Rolex, Tudor og Michelsen úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert