Lán en ekki leiga

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að samningur banka um fjármögnunarleigu  vegna vinnuvélar væri í raun lánssamningur en ekki leigusamningur.

Um er að ræða mál vegna kröfu Íslandsbanka  í þrotabú félagsins AB 258 ehf. um fjármögnunarleigu vegna skurðgröfu. Aðila greindi einkum á um hvort um væri að ræða lánssamning eða leigusamning.

Hæstiréttur taldi að þegar ákvæði sérstakra og almennra skilmála samningsins væru virt í heild yrði að telja að þótt samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Yrði að líta svo á að í raun hefði Glitnir, fyrirrennari Íslandsbanka, veitt fyrirtækinu lán til kaupa á vinnuvél, sem bankinn hefði kosið að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að samningurinn væri lánssamningur.

Vísaði Hæstiréttur til fyrri dóma réttarins og staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms um að ákvæði samningsins um gengistryggingu hefði verið í andstöðu við fyrirmæli laga og væru því ekki skuldbindandi fyrir þrotabú félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert