Lömuðu fórnarlambið af hræðslu

Davíð Freyr og Ríkharð mæta til þingfestingar málsins.
Davíð Freyr og Ríkharð mæta til þingfestingar málsins. mbl.is

Fjölskipaður héraðsdómur í Black Pistons-málinu svonefnda taldi að mennirnir þrír sem dæmdir voru hefðu brotið niður mótstöðuþrek ungs manns, fórnarlambs síns, og lamað hann af hræðslu með hrottalegri og endurtekinni líkamsárás og með hótunum um ófarir hans og fjölskyldu hans. Því hafi verið um frelsissviptingu að ræða þó svo að manninum hafi hvorki verið líkamlega haldið né hann verið bundinn eða lokaður inni.

Í morgun dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur þrjá karlmenn í fangelsi fyrir hlut sinn í málinu. Þyngsta dóm hlaut Ríkharð Júlíus Ríkharðsson en hann skal sitja inni í þrjú og hálft ár. Ríkharð er sagður hafa verið foringi glæpasamtakanna Black Pistons. Meðlimur þeirra samtaka, Davíð Freyr Rúnarsson, hlaut þriggja ára fangelsisdóm. Báðir voru þeir sakfelldir fyrir stórfellda líkamsárás og frelsissviptingu. Að auki var 17 ára piltur dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir sinn þátt í málinu en hann var tölvuert minni og varðaði aðeins frelsissviptinguna. Allir voru þeir sýknaðir af tilraun til ráns.

Dómurinn taldi brot Ríkharðs og Davíðs stórfelld og ófyrirleitin. Með brotum sínum hefðu þeir valdið ungum manni stórfelldu líkamstjóni með hrottafenginni og endurtekinni líkamsárás auk þess að svipta hann frelsi sínu svo tímum skipti.  Að mati dómsins var þetta til þess fallið að valda manninum mikilli andlegri áþján og ótta um líf sitt og velferð fjölskyldu sinnar.

Mennirnir voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu að kvöldi þriðjudagsins 10. maí sl. og fram á miðvikudaginn 11. maí þegar maðurinn slapp úr klóm þeirra. Þá segir í ákæru að mennirnir hafi í félagi reynt að neyða út úr ungum karlmanni, fórnarlambi í málinu, fé með því að hóta að beita hann og nána vandamenn hans ofbeldi, svipta hann frelsi sínu og beita hann líkamlegu ofbeldi ef hann útvegaði þeim ekki 10.000.000 kr. í reiðufé, ferðatölvu, tvo flatskjái, tvö mótorhjól og bifreið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert