Bjóst við hærra hlutfalli

Efiðleikarnir eru aðallega þar sem tekjur heimilisins byggjast á tekjum …
Efiðleikarnir eru aðallega þar sem tekjur heimilisins byggjast á tekjum eins einstaklings. mbl.is/Golli

„Satt best að segja kemur mér það svolítið á óvart að það skuli ekki vera hærra hlutfall sem hefur lent í vanskilum síðustu tólf mánuði með fasteignaveðlán. Okkar upplifun er sú að það sé stærra hlutfall. Út frá því hvernig umræðan hefur verið hélt ég að þetta væri allt að 20%. Líka út frá því að þeir sem koma til okkar eru komnir í það mikil vandræði," segir Svanborg Sigmarsdóttir upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara um niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands 2011 sem komu út í dag. Þær sýna að 10,2% heimila höfðu lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu undanfarna 12 mánuði og 12,4% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili.

Svanborg segir að það hafi komið sér á óvart að vanskil á öðrum lánum en fasteignaveðlánum hafi dregist saman. „Fólkið sem kemur til okkar er í miklum vandræðum með þessi önnur lán, lán sem eru ekki með neitt veð á bak við sig. En þessi lækkun gæti verið að hluta til endurreikningur á bílalánunum. En það sem við höfum séð hjá okkur er hvað önnur lán en fasteignaveðlán geta verið þung byrði þegar allt er tekið til; kreditkortaskuldir, yfirdráttarheimildir, bílalán og aðrir reikningar."

Í lífskjararannsókninni kemur fram að einstæðir foreldrar eru helst í fjárhagsvandræðum og segir Svanborg það vera í samræmi við það sem þau upplifi hjá Umboðsmanni skuldara. „Einstæðir foreldrar hafa lengi verið stærsti hópurinn hjá okkur. Það er erfiðara fyrir þá að ná endum saman og líklegra að þeir séu í vanskilum. Einhleypir karlmenn eru líka stór hópur, oftast greiða þeir meðlag. Erfiðleikarnir eru aðallega þar sem að tekjur heimilisins byggjast á tekjum eins einstaklings en ekki tveggja."

Í rannsókninni kemur fram að 51,5% heimila hafi átt erfitt með að ná endum saman síðustu tólf mánuði og fjárhagsstaða heimilanna hafi verið heldur verri en næstu ár á undan. Svanborg segir það raunhæfa niðurstöðu miðað við spurninguna sem var borin fram. „Það er verið að spyrja frá febrúar/mars 2010 til sama tíma 2011. Það er í samræmi við aðrar hagtölur að það yrði erfiðari ár en 2008 og 2009."

Spurð hvernig upplifunin af ástandinu sé hjá Umboðsmanni skuldara  segir Svanborg að umsóknum til þeirra hafi fækkað mikið og einnig því fólki sem til þeirra leitar. „Í lok júní þegar frestun greiðslna nýrra umsókna féll niður komu um 800 umsóknir. Mánuðina þar á undan komu að meðaltali 250 sem óskuðu eftir greiðsluaðlögun. Núna síðustu mánuði hafa komið um 30 nýjar umsóknir í hverjum mánuði.Þeir sem eru í verstu stöðunni eru búnir að leita lausna eða sitja enn heima og gera ekki neitt."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert