Eldur kom upp í þurrkara í kjallara heimavistar Menntaskólans á Akureyri við Eyrarlandsveg klukkan 17 í dag.
Brunaviðvörunarkerfi hússins gerði viðvart og fóru slökkviliðsmenn á staðinn í dælubíl og sjúkrabíl. Reykkafarar fóru inn í kjallarann og gekk vel að slökkva staðbundinn eld í þurrkaranum og var rýmið reykræst í kjölfarið.
Slökkvilið Akureyrar segir, að talsverðar sót- og reykskemmdir hafi orðið í þvottahúsinu, en engum íbúa vistarinnar varð meint af.