Skúli S. Ólafsson, prestur og sonur Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, segir að heimili hans og fjölskyldunnar hafi verið ákaflega hefðbundið ólíkt því sem systir hans, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, lýsir í ný útkominni bók sinni.
Skúli kom fram í Kastljósi í kvöld en fyrir mánuði kom Guðrún Ebba fram í viðtali í Sjónvarpinu þar sem hún talaði um bernsku sína og ítrekað kynferðislegt ofbeldi af hálfu föður síns.
Hann segist aldrei hafa heyrt talað um einkasalerni Ólafs sem Guðrún talar um í bókinni. Hins vegar hafi verið gestasalerni í húsinu þar sem Ólafur geymdi rakdót og tannbursta.
Ekki raunverulegar minningar heldur falskar
Skúli segist telja að minningar Guðrúnar Ebbu séu ekki raunverulegar minningar heldur falskar minningar og byggir á því að einstaklingur sem hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli fer í einstaklingsviðtöl þar sem minningar verða til.
Skúli segist telja að systir hans telji að hún fari rétt með. Hins vegar geti þetta verið falskar minningar. Hann segir að hann geti ekki haldið neinu fram með fullri vissu þar sem hann viti ekki allt sem hafi gerst.
Hann segir að Guðrún Ebba hafi sagt fjölskyldunni frá því hvað hafi átt að hafa gerst árið 2006 og það hafi verið mikið áfall fyrir alla fjölskylduna. Þau hafi kafað ofan í minningar sínar í kjölfarið. Skúli segir að ekkert annað hafi komið til greina að reyna að standa saman og þau hafi reynt að ræða málin við Guðrúnu Ebbu.
Skúli segir að fjölskyldan sé sundruð og að móðir þeirra hafi reynt að hafa samband við Guðrúnu Ebbu dóttur sína og dætur hennar. Hann segist hugsa til Guðrúnar Ebbu með mikilli væntumþykju. Hún sé mesti þolandinn í málinu. Hún hafi verið leidd út a braut sem einkennist af fölskum minningum og tjón hennar sé mest.
Að sögn Skúla veigra þeir sálfræðingar sem hann hafi verið í sambandi við varðandi málið að stíga fram og lýsa skoðunum sínum og mæta þeirri orrahríð sem muni mæta þeim. Hann segir að hver og einn verði að móta sína skoðun á málinu.
Í viðtali við Sjónvarpið sagði Guðrún Ebba að faðir hennar hefði síðast beitt hana kynferðislegu ofbeldi í Kanada. Skúli segir að móðir þeirra segi hins vegar að Ólafur hafi hrotið við hlið hennar alla nóttina en þau hafi fengið sér í glas um kvöldið. Síðan hafi Guðrún Ebba farið með foreldrum sínum í boð daginn eftir án þess að minnast einu orði á að meint ofbeldi hafi átt sér stað.
Hefur samúð með þeim konum sem hafa stigið fram
Hann segir að það sé ekki í hans verkahring að tjá sig um aðrar ásakanir á hendur föður þeirra um að Ólafur hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Skúli segir að hann hafi ekki verið á staðnum þegar þær konur hafi komið fram. Hann segist hafa mikla samúð með þessum konum. Skúli segir þessar ásakanir vera eðlisólíkar þeim ásökunum sem Guðrún Ebba haldi fram. Í þessum málum sé ekki um barnaníð að ræða líkt og Guðrún Ebba sakar föður sinn um.
Móðir Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og systkini hennar segja lýsingar hennar af heimili Ólafs Skúlasonar, biskups og fjölskyldu rangar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ebba Sigurðardóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Skúli S. Ólafsson hafa sent á fjölmiðla en nýverið kom út bók Guðrúnar Ebbu þar sem hún sakar föður sinn um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi árum saman.
„Við undirrituð, systkin og móðir Guðrúnar Ebbu, gerum alvarlegar athugasemdir við frásögn hennar í nýútkominni bók og viðtölum við fjölmiðla. Í upphafi bókarinnar segist hún ekki tilheyra lengur fjölskyldunni. Það var alfarið hennar ákvörðun og ekki í samræmi við vilja okkar.
Lýsing hennar á heimilislífi okkar er röng. Heimilið okkar einkenndist ekki af kúgun af hálfu föður okkar og eiginmanns Ólafs Skúlasonar.
Mál þetta hefur verið okkur og fjölskyldu okkar afar þungbært. Fram til þessa höfum við haldið okkur til hlés í þessari umræðu í þeirri von að henni myndi linna fyrr en síðar. Nú er svo komið að við getum ekki lengur orða bundist. Við vörum við einhliða málflutningi og þöggun í þessu viðkvæma máli.
Við hvetjum til þess að fram fari heiðarleg og fagleg umræða um bældar minningar af þeim toga sem Guðrún Ebba segir liggja til grundvallar ásökunum sínum. Við teljum það siðferðilega skyldu okkar að standa vörð um þá sem ekki geta varið sig sjálfir og leiðrétta rangfærslur er okkur varða. Fyrst og fremst þá inniheldur frásögn Guðrúnar Ebbu lýsingar á heimilislífi og atburðum sem ekkert okkar þriggja kannast við.
Ebba Sigurðardóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Skúli S. Ólafsson"