Gagnrýna grein dósents

Frá síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins.
Frá síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins.

Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem gagnrýnd er harðlega grein eftir Eirík Bergmann Einarsson, dósent við Háskólann á Bifröst, sem birtist í Fréttatímanum um síðustu helgi.

Í yfirlýsingu Framsóknarflokksins segir, að Eiríkur fjalli í nokkrum greinum um ýmsar þjóðernisöfgahreyfingar í Evrópu og blandi Framsóknarflokknum í þá umræðu með afar undarlegum hætti. Tilefni tengingarinnar við Framsóknarflokkinn sé að á flokksþingi framsóknarmanna fyrr á þessu ári hafi íslenski fáninn og fánalitirnir verið áberandi og sýnd hafi verið íslensk glíma. Loks sé því haldið fram að merki flokksþingsins hafi fasíska skírskotun.

„Framsóknarmenn geta ekki setið undir ósönnum aðdróttunum um þjóðernisöfgar og útlendingahatur, aðdróttunum sem settar eru fram í pólitískum tilgangi og á fráleitum forsendum. Ekkert í stefnu flokksins réttlætir slíka umfjöllun, þvert á móti, enda víkur Eiríkur ekki einu orði að stefnu flokksins í skrifum sínum. Þingflokkurinn telur mjög alvarlegt að fulltrúi háskólastofnunar leyfi sér að koma fram á þennan hátt," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert