Tannlæknastofa í Reykjavík rukkaði rúmar níutíu þúsund krónur fyrir viðgerð á skemmd á milli tveggja jaxla í sex ára gömlum dreng. Móðir drengsins segir aðgengi að verðskrám tannlækna afar slæmt.
Arnfríður Arnardóttir fór með son sinn í árlegt eftirlit á tannlæknastofu í Reykjavík. Við skoðun kom í ljós að drengurinn var með skemmd á milli tveggja jaxla. Var Arnfríði tjáð að hún þyrfti að bóka tvo tíma. Í þeim fyrri yrðu tennurnar flúorlakkaðar en í þeim seinni yrði gert við skemmdina.
Greiddi hún tæplega 25 þúsund krónur fyrir skoðunina og flúorlökkunina. Kom í ljós að skemmdin var komin í kviku og þurfti að fjarlægja hana. Tók viðgerðin sjálf í seinni tímanum klukkustund.
„Þegar ég kem fram segir ritarinn mér að þetta kosti 50 þúsund krónur, bara að láta lagfæra þessa skemmd. Ég hafði ekki verið vöruð neitt við því eða sagt hver væri áætlaður kostnaður við þetta,“ segir Arnfríður í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Alls nam kostnaðurinn samkvæmt gjaldskrá stofunnar því 90.840 krónum. Með afslættinum sem Arnfríður fékk af viðgerðinni og flúorlökkuninni og þegar endurgreiðsla Sjúkratryggingarstofnunar Íslands er tekin með í reikninginn kemur hún til með að hafa greitt 41.856 krónur fyrir tannviðgerð sonar síns.
Í kjölfarið gerði Arnfríður verðkönnun á nokkrum tannlæknastofum sem sérhæfa sig í barnatannlækningum. Kom þá í ljós að verðskrárnar liggja ekki á lausu.