Reykjavíkurborg hefur skotið skjólshúsi yfir rithöfundinn Mazen Maarouf frá Líbanon en hann kom til Reykjavíkur fyrir rúmri viku. Mun hann dvelja hér að vild næstu tvö árin sem gestur borgarinnar.
Þetta kemur fram á vef borgarinnar.
Þar segir að Reykjavík hafi nýverið gerst aðili að ICORN, samtökum borga sem séu skjólborgir rithöfunda sem hafi af einhverjum ástæðum þurft að yfirgefa heimalönd sín t.d. vegna hótana eða annarra ofsókna.
Fram kemur að PEN samtökin, alþjóðleg samtök rithöfunda sjái um, að gert sé mat á höfundi sem óskar eftir skjóli áður en hann kemst á lista ICORN.
„Mazen Maarouf er af palestínskum uppruna. Fjölskylda hans eru ríkisfangslausir palestínskir flóttamenn sem neyddust til að yfirgefa Palestínu árið 1948. Fjölskyldunni var fyrst komið fyrir í flóttamannabúðunum í Tal-el-Za´tar með fleiri Palestínumönnum en þurftu síðan að flytja sig margoft um set vegna hernaðarátaka í Líbanon. Mazen er fæddur í Beirut árið 1978. Hann er ljóðskáld, rithöfundur, blaðamaður og gagnrýnandi og hefur unnið fyrir nokkur dagblöð í Líbanon jafnt sem erlend dagblöð,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.