Tekist var á um það í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun hvort þinghald í máli konu sem sökuð er um að hafa borið út barn sitt í sumar verði opið. Dómarinn vildi taka ákvörðun um málið við upphaf aðalmeðferðar en verjandi konunnar vildi að úrskurðað verði um það í næsta þinghaldi.
Dómari úrskurðar því í næsta þinghaldi hvort um opið þinghald verði að ræða við aðalmeðferð málsins.
Konan sem er 22 ára og er frá Litháen var handtekin í sumar vegna rannsóknar á andláti barns við Hótel Frón í Reykjavík. Lík barnsins fannst í ruslagámi við hótel í Reykjavík.
Komið var með konuna á bráðamóttöku Landsspítalans vegna blæðinga og kviðverkja í byrjun júlí. Þrátt fyrir að konan kannaðist ekki við að hafa verið ófrísk, töldu læknar að hún hefði misst fóstur og verkir og blæðing stöfuðu af því. Við nánari skoðun voru læknar þess fullvissir að hún hefði fætt barn þá skömmu áður eða á síðasta sólahring. Lögreglu var þá þegar gert viðvart og hófst strax rannsókn og eftirgrennslan eftir barni. Skömmu síðar fann lögregla nýfætt barn í ruslagámi við hótelið þar sem konan vann.
Konan er ákærð fyrir manndráp, með því að hafa fætt fullburða lifandi sveinbarn á einu baðherbergi hótelsins veitt drengnum tvo skurðáverka á andlit með bitvopni og banað honum síðan með því að þrengja að hálsi hans uns hann lést af völdum kyrkingar.