Tengdust ekki Occupy Reykjavík

Mótmælt var við þinghúsið í morgun.
Mótmælt var við þinghúsið í morgun. mbl.is/Ásgeir

Hópur fólks sem krotaði með krítum á gangstéttirnar við bandarískra sendiráðið við Laufásveg og Alþingi tengist ekki Occupy Reykjavík hreyfingunni. Um hóp einstaklinga var að ræða sem vilja mótmæla stríðsrekstri.

Þórarinn Einarsson, sem tengist báðum hópum, fullyrðir í samtali við mbl.is að það sé rangt sem skrifstofustjóri Alþingis hafi haldið fram, að mótmælendur úr röðum Occupy Reykjavík hafi staðið fyrir mótmælunum.

Þórarinn segir að Lárus Páll Birgisson, sem margir þekki sem mótmælandann Lalla sjúkraliða, hafi staðið fyrir mótmælunum. Lárus hlaut í morgun dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu vegna fyrri mótmæla við sendiráð Bandaríkjanna.

Í tilefni þessa hafi Lárus hvatt nokkra einstaklinga til að mótmæla með sér í dag. Að lokinni dómsuppkvaðningu hafi slagorð verið krítuð á stéttina við héraðsdóm og í framhaldinu hafi stefnan verið tekin á bandaríska sendiráðið.

Þar hafi tveir lögreglumenn og tveir sérsveitarmenn beðið mótmælendur um að fara, en mótmælendurnir hafi neitað. Þá heldur Þórarinn því fram að lögreglumaður hafi sparkað í Lárus.

„Við stóðum fast á rétti okkar. Það hefur komið fram í deilum okkar og rökræðum við lögreglu að við hefðum fulla heimild til að vera þarna. Við ætluðum að láta reyna á þann rétt og fá að vera þarna í friði í 10 mínútur,“ segir Þórarinn sem segist hafa fylgt Lárusi í dag en ekki tekið þátt í því að kríta skilaboð á stéttirnar.

Í framhaldinu kom hópurinn við á Austurvelli. Að sögn Þórarins krotaði Lárus og annar maður á stéttina við Alþingi. „Þetta voru allt slagorð gegn Nató og stríði. Þannig að þetta var ekkert tengt Occupy Reykjavík.“

Mótmælendurnir krotuðu einnig á veggi þinghússins en að sögn Þórarins var það gert vegna þess að þingverðirnir höfðu verið með leiðindi.

Krotað á veggi þinghússins.

Mótmælt við sendiráðið í morgun.
Mótmælt við sendiráðið í morgun. mbl.is/Ásgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert