Bjarni sigraði

Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í dag.
Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson fór með sigur af hólmi í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í dag. Alls greiddu 1323 atkvæði í kjörinu og Bjarni hlaut 727 atkvæða eða 55%  en Hanna Birna Kristjánsdóttir 577 atkvæði eða  45%.

„Ég er óendanlega þakklátur ykkur öllum fyrir þennan mikla og mikilvæga stuðning sem ég hef fengið til að leiða áfram stærsta, sterkasta og mikilvægasta stjórnmálaaflið á Íslandi," sagði  Bjarni eftir að Sturla Böðvarsson, fundarstjóri, hafði lýst hann réttkjörinn formann flokksins.

Bjarni sagði að kosningabaráttan í formannskjörinu hefði verið flokknum til sóma. Sagðist hann vita að þau Hanna Birna myndu vinna jafn vel saman hér eftir og þau hefðu gert til þessa. 

Hanna Birna ávarpaði fundinn eftir kjörið og óskaði Bjarna til hamingju. Hvatti hún alla sjálfstæðismenn til að fylkja sér á bak við hann.

Hún sagðist þó ekki neita því að hún hefði viljað sjá aðra niðurstöðu. Hún hefði talið að þörf væri á breytingum á forustu Sjálfstæðisflokksins og hún væri enn þeirrar skoðunar.

Hanna Birna sagði, að margir hefðu hvatt hana til að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins. Sagðist hún telja að það hefði verið rétt ákvörðun að gefa kost á sér í kjörinu og það hefði styrkt flokkinn og sýndi þann kraft og lýðræðishefð sem Sjálfstæðisflokkurinn byggi yfir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir óskar Bjarna til hamingju með kjörið.
Hanna Birna Kristjánsdóttir óskar Bjarna til hamingju með kjörið. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka