Fjölnir Stefánsson, tónskáld og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskóla Kópavogs, lést á heimili sínu í gær, 81 árs að aldri.
Hann fæddist í Reykjavík 9. október 1930 og voru foreldrar hans Hanna Guðjónsdóttir píanókennari og Stefán Kristinsson tollstjórafulltrúi. Systkin Fjölnis eru: Hanna Kristín, f. 24.12. 1939, Elín, f. 13.10. 1943, Sigríður, f. 10.8. 1945 og Árni Erlendur, f. 14.2. 1949.
Eftirlifandi eiginkona Fjölnis er Arndís Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru Ingibjörg, f. 31.10. 1958, Þorbera, f. 20.1. 1962 og Brynhildur, f. 28.5 1967.
Fjölnir nam við Verslunarskólann og Tónlistarskólann í Reykjavík, stundaði sellónám hjá dr. Heinz Edelstein og nám í hljómfræði og tónsmíðum hjá Jóni Þórarinssyni frá 1947, lauk burtfararprófi 1954. Einnig stundaði hann framhaldsnám í tónsmíðum hjá Matyas Seiber í London 1954-1958. Meðal margra tónsmíða eftir Fjölni má nefna þrjú sönglög fyrir sópran og píanó við ljóð úr Tímanum og vatninu, sextett fyrir flautu, klarinett, horn, fagott, fiðlu og selló, hljómsveitarverkið Kóplon, og Limrur við ljóð Þorsteins Valdimarssonar.
Fjölnir var kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík 1958-1968, við Tónlistarskóla Mosfellshrepps 1965-1966 og Tónlistarskóla Keflavíkur 1965-1967. Hann var skólastjóri Tónlistarskóla Kópavogs 1968-2000.
Formaður stjórnar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar var Fjölnir 1983-1984, sat í stjórn STEFs 1974-1988 og var meðal stofnenda Musica Nova. Hann hafði forgöngu um stofnun Taflfélags Kópavogs og var formaður 1967-1971, hann var gerður heiðursfélagi 1994. Árið 1994 var Fjölnir einnig heiðurslistamaður Kópavogs.