Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir í samtali við vefritið Smuguna að hún sé afar ósátt við ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að synja beiðni Huang Nubo um undanþágu til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
Jóhanna segir í viðtalinu að ákvörðunin sé tekin í andstöðu við ráðherra Samfylkingarinnar og þingmenn hafi auk þess lýst sig ósátta við málið á þingflokksfundi í dag. ,,Það er ósætti um málið, það er óhætt að segja það.“
Jóhanna segir að ákvörðunin sé þó á borði Ögmundar. „Ég var þó mjög ósátt við að Ögmundur Jónasson hafi tilkynnt um ákvörðun sína fyrir ríkisstjórnarfund. Ég tel að ákvörðun af þessari stærðargráðu hefði átt að ræða við ríkisstjórnarborðið þótt hún liggi lögformlega hjá ráðherranum. Ríkisstjórnin vill auka erlenda fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu og við þurfum sárlega á erlendri fjárfestingu að halda,“ segir Jóhanna við Smuguna.
Aðspurð hvort það sé titringur í ríkisstjórnarsamstarfinu vegna málsins segir Jóhanna að ríkisstjórnin hafi ekki verið mynduð um landakaup Kínverja. „En þetta styrkir ekki ríkisstjórnarsamstarfið. Það er alveg ljóst.“