Kanna eigi stofnun íslensks ríkisolíufélags

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Sú stefna sem rekin hefur verið á Íslandi í tíð núverandi ríkisstjórnar er nánast til þess hönnuð að halda aftur af fjárfestingu, enda er fjárfesting á Íslandi nú sú minnsta síðan mælingar hófust. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar hann ávarpaði miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í dag.  Sigmundur sagði að á Íslandi væru ómæld tækifæri til framtíðar og nefndi m.a. í því samhengi olíuvinnslu á Drekasvæðinu og að kanna ætti til lítar stofnun íslensks ríkisolíufélags.

„Staða Íslands er allt önnur en flestra Evrópulanda. Hér er allt til alls svo byggja megi hratt upp velferð fyrir alla. Þetta blasir við okkur ef við lítum yfir síðast liðin 2-3 ár og metum, jafnvel af talsverðri varfærni, hvaða áhrif það hefði haft að fylgja skynsamlegri stefnu við stjórn landsins undanfarin ár. Ef aðeins brot af þeim atvinnuskapandi verkefnum sem stjórnvöld hafa fælt frá hefðu náð fram að ganga væri atvinnuleysi lítið og hagvöxtur með þeim hæsta á Vesturlöndum,“ sagði Sigmundur Davíð þegar hann ávarpaði flokk sinn í Borgarnesi í dag. 

Hann sagði að krísan í Evrópu hefði nú náð nýjum hæðum. Þar stæði yfir efnahagslegt gjörningaveður sem hann óttist að sé upphafið að löngu hnignunarskeiði og samfélagsbreytingum. Á Íslandi séu framtíðarhorfur hinsvegar góðar ef vel er á málum haldið. Betri en víðast hvar annars staðar. „Auðlindir okkar samanstanda af þeim hlutum sem mestur skortur verður á í heiminum til framtíðar, orku, vatni, matvælum, landrými, sterkum samfélagslegum innviðum og öryggi,“ sagði Sigmundur.

Hann nefndi sem dæmi jákvæðar niðurstöður úr rannsóknum Norðmanna og Orkustofnunar á Drekasvæðinu fyrir nokkrum dögum. Full ástæða væri til að taka þau mál föstum tökum. Kanna ætti til hlítar stofnun íslensks ríkisolíufélags til að tryggja að sem mest af hugsanlegum ávinningi verði eftir hjá íslensku þjóðinni.
Stofnun slíks félags hefur verið til skoðunar hjá olíumálaskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og ráðgjafafyrirtækinu PWC og þykir vænlegur kostur. Raunhæfar væntingar um olíuvinnslu hafa strax góð áhrif á stöðu landsins þótt vinnsla hefjist ekki strax.

Ræða Sigmundar Davíðs í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert