Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ummæli, sem maður lét falla á bloggsíðu og Facebook um fjölskyldu í Aratúni í Garðabæ, dauð og ómerk. Var bloggarinn dæmdur til að greiða 300 þúsund krónur í bætur auk málskostnaðar, 650 þúsund króna.
Um er að ræða eitt margra meiðyrðamála, sem höfðuð hafa verið í kjölfar umfjöllunar um málið í fjölmiðlum og á netinu á síðasta ári.
Í dómnum eru málavextir raktir. Andrés Helgi Valgarðsson heldur úti bloggsíðu, www.vrovl.blogspot.com, og sagðist fyrir dómi birta þar hugrenningar sínar og skoðanir og fjalla um málefni líðandi stundar.
Hinn 19. júlí í fyrra birti Andrés umfjöllun undir fyrirsögninni siðblint ofbeldisfólk og ráðalaus lögregla. Þar lýsti hann ofbeldi sem vinafólk hans hefði sætt af hálfu nágranna sinna í Aratúni.
Lögmaður Margrétar Lilju Guðmundsdóttur, konunnar sem ummælin beindust m.a. gegn, skoraði á Andrés í kjölfarið að biðjast opinberlega afsökunar á ummælunum og draga þau til baka auk þess sem krafist var miskabóta til handa Margréti og fjölskyldu hennar.
Í dómnum segir, að ekki hafi verið brugðist við kröfubréfinu en í lok september sama ár stofnaði Andrés vefsíðu á Facebook-vefnum undir heitinu „Ofbeldisfólkið í Aratúni bak við lás og slá - Réttlæti fyrir fórnarlömbin“. Þar hélt hann áfram umfjöllun sinni um Margréti og eiginmann hennar. Sagði hann þar m.a., að ítrekað ofbeldi og einbeittur brotavilji hjónanna ætti ekki að líðast. Jafnframt var vísað til umfjöllunar DV um hjónin í Aratúni 34, sem Andrés taldi taka af allan vafa um það hvers lags nágrannar þau væru. Sagði þar m.a. að hjónin, sem ættu langan brotaferil að baki, hefðu komist í fjölmiðla fyrr um sumarið fyrir hrottalegar ofsóknir og ofbeldi á hendur nágrönnum sínum sem í kjölfarið flúðu heimili sitt.
Í niðurstöðu dómsins segir, að enda þótt ætla verði bloggurum svigrúm til þess að fjalla um málefni sem eigi erindi til almennings og séu hluti af þjóðfélagsumræðu verði að gera þær kröfur til þeirra að umfjöllunarefni þeirra séu sett fram með málefnalegum hætti.
Nágrannarnir í Aratúni báru vitni fyrir dómi og lýstu samskiptum sínum við fjölskylduna, sem fjallað var um í bloggfærslunum. Héraðsdómur segir, að þótt Margrét hafi sýnt af sér ólíðandi hegðun í garð nágranna sinna, sbr. það sem rakið sé í framburði þeirra, þyki ekki hafa verið sýnt fram á af hálfu Andrésar að hún hafi sýnt af sér ofbeldi í þeirra garð.
Héraðsdómur segir, að með ummælum sínum ýi Andrés að því að Margrét hafi gerst sek um refsivert athæfi en kærur, sem lagðar voru fram vegna deilnanna, hafi ekki beinst að henni. Í ummælum Andrésar felist aðdróttun um hegðun sem ósannað sé að Margrét hafi sýnt af sér og því teljist ummælin ærumeiðandi gagnvart henni.
Margrét krafðist þess að alls átta tilgreind ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk og féllst dómarinn á þá kröfu varðandi sjö þeirra.