Borgin breytir loks merkingum

Líklega hefði verið þægilegra að setja niður umferðareyjar og fleira …
Líklega hefði verið þægilegra að setja niður umferðareyjar og fleira í sumar, þegar þessi mynd var tekin mbl.is/Júlíus

Deilu milli lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar um merkingar á Suðurgötu virðist loks vera að ljúka með því að borgin hefur fallist á að afmarka hjólreiðastíginn á götunni mun betur en áður. Athugasemdir lögreglu lutu að merkingunum en ekki að því að Suðurgata væri einstefnugata.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögregla fagni þessum breytingum sem snúi að þeim athugasemdum sem lögregla gerði og lutu allar að umferðarmerkingum. Beðið sé eftir formlegri tillögu frá borginni.

Tæplega ár liðið frá synjun

Deila lögreglu og Reykjavíkurborgar hefur staðið yfir í tæplega eitt ár, eða frá því að lögregla synjaði borginni um staðfestingu á breytingu Suðurgötu yfir í einstefnugötu. Götunni var breytt í september 2010 en synjunin er dagsett í byrjun janúar 2011. 

Lögregla gerði ekki athugasemdir við að götunni yrði breytt í einstefnu eða að þar yrði hjólastígur heldur lutu athugasemdirnar að því að lögregla taldi að hjólastígurinn væri ekki nægilega vel afmarkaður og merkingar væru villandi. Sökum þess að lögregla staðfesti ekki breytinguna hefur alla tíð verið refsilaust að aka gegn einstefnumerkjunum á Suðurgötu, þ.e. ökumenn sem staðnir hefðu verið að akstri gegn merkjunum hefðu ekki verið sektaðir. 

Hægt að klára fljótlega ef ekki kafsnjóar

Í dag sendi Reykjavíkurborg frá sér tilkynningu undir fyrirsögninni „Suðurgata áfram einstefnugata.“ Þar kom fram að samkomulag hefði náðst við lögreglu um lokaframkvæmdir vegna einstefnu við Suðurgötu. Áfram yrði hjólastígur á götunni. Ákveðið hefði verið að koma umferðareyjum fyrir á Suðurgötu, við Kirkjugarðsstíg annars vegar og Skothúsveg hins vegar og bætt úr merkingum. Hjólreiðastígsskilti verður sett við gangstéttina og annað um að innakstur sé bannaður á götuna við Skothúsveg. Í tilkynningunni segir að framkvæmdum verði hraðað eins og kostur er.

Örn Sigurðsson, starfandi sviðsstjóri á umhverfis- og samgöngusviði, segir að samkomulagið hafi náðst á fundi með lögreglu í vikunni. Í gær eða snemma í morgun hefði borgin sent lögreglu upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar en ekki hefði borist staðfesting á því að lögregla hefði fallist á þær. Hann á þó ekki von á öðru enda væru þær í samræmi við samkomulag sem náðst hefði á fundinum.

Örn segir að á meðan ekki kafsnjói eigi að vera hægt að byrja á breytingunum fljótlega og ljúka þeim innan tíðar. 

Skilti afmarka hjólreiðastíg betur frá akbraut

Það hefur legið fyrir frá því í janúar að lögregla telur merkingarnar ófullnægjandi. Hvað verður til þess að ákveðið er að gera þessar breytingar núna?

Örn segir að borgin hafi sent lögreglu erindi í mars um hvernig mætti bæta merkingar á Suðurgötu en lögregla taldi þær ekki fullnægjandi. Breytingin nú, miðað við tillögurnar í mars, væri sú að sett yrðu upp skilti sem afmörkuðu hjólreiðastíginn betur og sýndu betur að um einstefnugötu væri að ræða. Skilti á mótum Skothúsvegar og Suðurgötu myndi skipta götunni á milli hjólreiðamanna og bílaumferðar. Í tillögunum í mars hefði eingöngu verið gert ráð fyrir yfirborðsmerkingum en lögreglustjóra hefði ekki fundist það fullnægjandi. 

„Málið var í einhverjum smáhnút. Menn voru að kasta þessu eitthvað á milli sín. En það þurfti ekki meira en klukkutíma til að leysa þetta,“ segir Örn.

Hér fyrir neðan má lesa þær athugasemdir sem lögregla gerði við breytinguna í janúar sl. ásamt myndum af vettvangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert