Fréttaskýring: Tengslin urðu Glitni að falli

Óveðursský voru farin að myndast yfir höfuðstöðvum Glitnis löngu áður …
Óveðursský voru farin að myndast yfir höfuðstöðvum Glitnis löngu áður en bankinn féll. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar Lárus Welding varð forstjóri Glitnis vorið 2007 fór af stað atburðarás þar sem nýir eigendur áttu eftir að beina fjármunum bankans til tengdra aðila. Fram að hruni bankans haustið 2008 áttu þessi tengsl eftir að koma fram í mörgum fjármálagerningum sem vafasamt er að hafi þjónað hagsmunum hluthafa og íslensks almennings, í ljósi mikilvægis bankans fyrir þjóðina.

Á þennan veg má draga saman í fáum orðum niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis á áhrifum krosseignatengsla á rekstur Glitnis.

Þessi tengsl eru baksvið þeirra atriða sem sérstakur saksóknari hefur gefið út að sé tilefni þess að þrír lykilmenn í bankanum hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Tapið var hluti af „langhlaupi“

Fyrst ber að nefna viðskipti Glitnis með hlutabréf sem bankinn gaf út sjálfur. Jóhannes Baldursson, fv. yfirmaður markaðssviðs hjá Glitni, lýsti afstöðu bankans til þessara viðskipta við skýrslutöku vegna gerðar rannsóknarskýrslunnar. Komst hann þá svo að orði: „Þegar rætt var um það tap sem hlaust af viðskiptum deildar eigin viðskipta Glitnis... með hlutabréf í Glitni að bankastarfsemi sú sem Glitnir stundaði væri „langhlaup“.“ Með því hefði Jóhannes átt við að hann „hefði verið tilbúinn til að taka á sig tap í niðursveiflu í viðskiptum með eigin hlutabréf og þá á sama hátt gróða í uppsveiflu“.

Taldi rannsóknarnefndin „yfirgnæfandi líkur“ á að viðskipti bankanna með eigin hlutabréf... hefðu farið fram í þeim tilgangi að „gefa misvísandi upplýsingar um eftirspurn eftir hlutabréfunum og hafa þannig áhrif á verð þeirra“.

Sérstök kjör fyrir vildarvini

„Í mörgum tilvikum veittu bankarnir völdum viðskiptavinum lán á hagstæðum kjörum og jafnvel án trygginga til þess að liðka fyrir slíkum sölum,“ segir í skýrslunni og er m.a. rakið að FL Group hafi verið í hópi útvalinna viðskiptavina.

„Rannsóknarnefndin telur... að Baugur, FL Group og Fons hafi fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá Glitni banka hf. að því er virðist í krafti eignarhalds síns.“

Þá ber að nefna sölutryggingu Glitnis á 15 milljarða verðbréfaútboði FL Group haustið 2007 sem Sjóður 9, sjóður í eigu Glitnis, hafði milligöngu um, en við hana eru gerðar ýmsar athugasemdir í skýrslunni.

Bankinn tók áhættuna

Meðal atriða sem talin eru „sérstaklega athyglisverð“ eru að hvikað hafi verið frá almennri fjárfestingarstefnu Sjóðs 9 að fjárfesta einkum í skammtímabréfum, keypt hafi verið öll útgáfan og þar með verulega dregið úr líkum á að raunhæft markaðsverð myndaðist með bréfin um leið og áhætta seljenda á eftirmarkaði jókst.

Er í framhaldinu rifjað upp að þegar skuldabréfin í FL Group voru gefin út átti Glitnir banki 6,52% hlut í FL/Stoðum og FL/Stoðir áttu 30,23% hlut í Glitni banka.

Baugsveldið kemur oft við sögu í rannsóknarskýrslunni og er dæmi tekið af því hvernig „sjóðir innan Glitnis sjóða hafi átt viðskipti sín á milli með óskráð og illseljanleg verðbréf“, þar með talið með „Baugsbréf“ við lok desembermánaðar 2007.

Svokallað „veikt eigið fé“ kemur einnig við sögu en það er skilgreint svo í skýrslunni að það samanstandi „af lánum veittum með veðum í eigin bréfum og framvirkum samningum í eigin bréfum“. „Hlutfallið óx verulega vorið 2008 þegar meðal annars Rákungur fékk lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum sem og félög í eigu lykilstjórnenda Glitnis... Um mitt ár 2008 nam veikt eigið fé rúmlega 20% af eiginfjárgrunni Glitnis banka,“ segir í skýrslunni.

Örþrifaráð

» Lárus Welding, fv. forstjóri Glitnis, lýsti því við skýrslutökur hjá rannsóknarnefndinni að andrúmsloftið til innlánssöfnunar hefði verið orðið „mjög neikvætt“ árið 2008.
» Af því tilefni hefði bankinn hleypt af stokkunum innlánsreikningnum Save & Save í Noregi og á Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert