Pétur Kristján Guðmundsson getur nú staðið óstuddur í stutta stund í senn með hjálp raförvunar í vöðva en Pétur hlaut mænuskaða og lamaðist fyrir neðan mitti á nýársnótt fyrir tæpu ári.
Pétri var í upphafi gefin lítil von um að fá mátt í fæturna að nýju en hann hefur verið í endurhæfingu á Grensásdeild LSH síðan. Stutt er síðan tekið var að beita raförvun með þessum hætti hér á landi og Pétur segir að um hálfgerða tilraunastarfsemi sé að ræða. Enn er þó langt í land en Pétur segir það vera frábæra tilfinningu að geta staðið á eigin fótum að nýju, þótt það sé einungis í stutta stund í senn.
Markmið Péturs er að styrkja vöðvana svo að hann geti gengið í spelkum sem hann notar en seinna meir vonast hann til að geta losnað við spelkurnar fyrir fullt og allt.