„Það tjón sem ég hef orðið fyrir er óbætt. Háskólinn hefur ekki bætt mér lögfræðikostnaðinn sem hlaust af brotum siðanefndar Háskóla Íslands á eigin starfsreglum og siðareglum HÍ eins og hin óháða rannsóknarnefnd háskólaráðs staðfesti að hefði átt sér stað í skýrslu sem skilað var til ráðsins núna í haust,“ segir Bjarni Randver Sigurvinsson, stundakennari í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Þar á hann ekki aðeins við fjárhagslegt tjón heldur einnig tjón á mannorði. Hann komi til með að fylgja því eftir innan HÍ með kærum gagnvart þeim sem hafi brotið sem mest á honum. Greint var frá því í síðasta Sunnudagsmogga að sérstök rannsóknarnefnd skilaði í síðasta mánuði af sér skýrslu um störf siðanefndar og stjórnsýslu HÍ vegna málsmeðferðar kæru samtakanna Vantrúar á hendur Bjarna sem töldu að sér vegið í kennslu hans, án þess að sækja þó tíma.
Aðspurður segist Bjarni telja að bæði Þórður Harðarson, prófessor í læknisfræði sem var formaður siðanefndar, og Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í vísindasögu og eðlisfræði sem einnig sat í nefndinni, eigi að víkja úr henni, „enda hafa þeir gerst brotlegir við siðareglur HÍ um málsmeðferð og margbrotið starfsreglur siðanefndarinnar, samkvæmt því sem skýrsla rannsóknarnefndar háskólaráðs hefur sýnt fram á. Ég skil ekki hvernig þeir geta setið áfram sem siðanefndarfulltrúar þegar slíkur úrskurður er kominn.“
Bjarni segist enn vera stundakennari við HÍ en hann hafi kennt við guðfræði- og trúarbragðafræðideild háskólans í mörg ár.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor við HÍ, segir málið flókið þegar spurt er hvort ekki hefði verið rétt að Þórður og Þorsteinn vikju úr siðanefnd. „Þeir sem hafa komið að málsmeðferðinni af hálfu siðanefndar hafa að mínu áliti gert það í góðri trú og viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað,“ segir Kristín. Vantrú hafi dregið kæruna til baka á endanum og háskólaráð síðan skipað óháða nefnd til að fara yfir meðferð málsins að beiðni beggja aðila. Í ljósi framvindu málsins megi þó spyrja hvort HÍ hafi ekki haft nægilega skýrar málsferðarreglur til að styðjast við.
Varðandi lögfræðikostnað Bjarna segir Kristín að það gildi almennt um siðanefndir í íslensku réttarfari að lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til slíkra nefnda sé ekki greiddur af viðkomandi stofnun. Hún tekur jafnframt fram að mikilvægt sé að siðanefnd starfi sjálfstætt og án afskipta rektors, líkt og í þessu tilfelli, þar sem nefndin sé oft að skoða mál sem rektor á endanum beri ábyrgð á. Almennt sé því ekki við hæfi að rektor skipti sér af málsmeðferð þeirra mála. „Því tel ég ekki rétt að ég blandi mér í einstök efnisatriði,“ segir Kristín og vísar til bókunar háskólaráðs í kjölfar birtingar skýrslu óháðu nefndarinnar. Endurskoðun starfsreglna hafi farið fram til að koma til móts við þau sjónarmið sem koma fram í skýrslunni. „Það sem þetta hefur kennt okkur er að málsmeðferðarreglur verða að vera skýrar og ferli mála gagnsætt.“
Kristín hafnar því að skýrslan sé áfellisdómur yfir siðanefnd. Málið hafi undið upp á sig af mörgum ástæðum og orðið að stóru máli.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, tók mál Bjarna Randvers og Háskóla Íslands upp á Alþingi í gær. Hann telur að þingið eigi að skoða málið betur og vísar þar til umfjöllunar í síðasta Sunnudagsmogga.
„Þarna eru upplýsingar sem gefa tilefni til þess að kanna hvað hafi gerst innan Háskólans.“ Hann hafi hlaupið frá því hlutverki sínu að vernda fræðimenn sína og einnig að vera vettvangur málefnalegrar gagnrýninnar umræðu og þess sem gerist í samfélaginu. Jafnframt hafi viðgengist einelti og Íslendingar umberi ekki slíkt lengur. Einnig hafi komið komi í ljós að grafið hafi verið undan þjóðkirkjunni með markvissum og skipulögðum hætti í langan tíma og það tengist beint þeirri umræðu að börn geti hvorki sótt helgileiki né messur tengdar jólunum innan skólanna.