Málið snúist um útúrsnúninga

Félagsmenn Vantrúar standa fyrir bingói á Austurvelli. Mynd úr safni.
Félagsmenn Vantrúar standa fyrir bingói á Austurvelli. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Ástæða þess að Vantrú kvartaði yfir kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar um félagið til siðanefndar HÍ var sú að þar voru orð tekin gróflega úr samhengi og teiknuð upp einhliða og villandi mynd af félaginu. Þetta segir Matthías Ásgeirsson, einn stofnenda Vantrúar.

Yfirlýsing varðandi erindi Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands sem birtist í aðsendri grein í Morgunblaðinu auk nokkurra annarra fjölmiðla í dag var undirrituð af 109 háskólamönnum við íslenska háskóla og stofnanir en í þeim hópi eru 84 kennarar og starfsmenn við Háskóla Íslands. Þar segir meðal annars að ekkert tilefni hafi verið til þess að gagnrýna kennslugögn Bjarna Randvers í námskeiði um nýtrúarhreyfingar.

Matthías segir hins vegar að orð félagsmanna hafi verið tekin gróflega úr samhengi í glærum sem Bjarni Randver notaði við kennslu sína og Vantrú kvartaði undan.

„Í stuttu máli sendi Vantrú þessa kvörtun því þegar við sáum þessar glærur um félagið fannst okkur gróflega snúið út úr okkar málflutningi og því sem við höfum sagt. Okkur fannst að það væri verið að mála af okkur skrípamynd,“ segir Matthías.

Fyrstu viðbrögð félagsmanna við því að heyra að verið væri að kenna um félagið við guðfræðideild Háskóla Íslands segir Matthías að hafi verið stolt. Það komi allt fram í póstum af lokuðum innri vef félagsins sem Bjarni Randver hafi undir höndum. Þegar nánar hafi verið að gáð hafi þeim þó þótt að í glærunum væri verið að mála af félaginu dökka og ljóta mynd.

„Í umfjöllun sinni byrjar hann að okkar mati að taka texta eftir okkur mjög skringilega úr samhengi. Hann fjallar nær ekkert um skrif á Vantrúarvefnum, ég held að hann vitni tvisvar í Vantrú.is í öllum glærunum, annars eru þetta bara bloggfærslur. Hann fjallar ekkert um það sem Vantrú skrifar eða gerir,“ segir Matthías.

Þannig sé ein glæran orðalisti yfir orðalag um nafngreinda einstaklinga sem eigi að sýna hversu orðljótir félagsmenn Vantrúar séu. Að sögn Matthíasar er þó margt á þeim lista alls ekki eftir Vantrúarsinna og þar séu orð sem aldrei hafi verið höfð um nafngreinda einstaklinga.

Þá sé Vantrú bendluð við herskáan málflutning sem sé „vatn á myllu haturshreyfinga sem grafi undan allsherjarreglu samfélagins og almennu siðferði“ á annarri glæru í glærupakkanum um félagið.

Matthías segir að almennt viðhorf félagsmanna hafi verið að senda þyrfti siðanefnd HÍ erindi háskólans sjálfs vegna. Í siðareglum skólans komi skýrt fram að fræðimenn gæti þess að gefa ekki villandi mynd af því sem fjalla sé um.

„Við teljum að Bjarni Randver hafi beinlínis afbakað upplýsingar þegar hann tekur tilvitnanir frá okkur eða klippir þær í sundur. Við sjáum ekki Vantrú í þessari kennslu. Hann tekur ekkert af greinum okkar eða því sem félagið hefur sagt opinberlega,“ segir Matthías.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka