Skorti fagleg vinnubrögð

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Kristinn Ingvarsson

Fagleg og akademísk vinnubrögð skortir hjá þeim háskólamönnum sem skrifa undir yfirlýsingu varðandi erindi Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands sem birtist í nokkrum fjölmiðlum í dag. Enginn þeirra sem skrifuðu undir kynnti sér hlið félagsins með að ræða við það. Þetta segir í yfirlýsingu á vef Vantrúar.

Alls skrifa 109 háskólamenn við íslenska háskóla og stofnanir undir yfirlýsinguna, en í þeim hópi eru 84 kennarar og starfsmenn við Háskóla Íslands. Í henni er sagt að glærur sem kennarinn Bjarni Randver Sigurvinsson notaði í kennslu um Vantrú og sem félagið kvartaði undan til siðanefndar reyni á engan hátt á mörk akademísks frelsis kennara eins og haldið hafi verið fram í kvörtun Vantrúar.

Í yfirlýsingu á vef Vantrúar sem birtist í dag segir að félagsmönnum þess finnist alvarlegur skortur á faglegum og akademískum vinnubrögðum þeirra háskólamanna sem skrifa undir yfirlýsinguna. Enginn þessara kennara og starfsmanna hafi haft fyrir því að kynna sér hlið Vantrúar með því að ræða við félagsmenn.

Þá hafi Vantrúarmenn áhyggjur af þeim alvarlega undirtóni sem greina megi í yfirlýsingunni. Hann birtist í hálfgerðri hótun um að háskólakennarar muni einfaldlega draga kennslu sína inn í skel, hætta að nota glærur eða taka tíma upp fyrir fjarnema ef glærur sem Bjarni Randver notaði teljist ámælisverðar að mati siðanefndar HÍ.

„Sú lausn sem þessir 84 kennarar og starfsmenn Háskóla Íslands bjóða upp á, að slá á fingur siðanefndar og hóta að minnka gagnsæi í kennslu sinni, er afar varhugaverð. Félaga í Vantrú, sem margir hverjir hafa stundað eða stunda enn nám við Háskóla Íslands, setur hljóða við þessa yfirlýsingu. Við vonum svo sannarlega að hún hafi ekki almennan hljómgrunn meðal starfsmanna Háskóla Íslands, annarra háskólastofnana eða eiganda Háskólans, íslensku þjóðarinnar,“ segir í yfirlýsingu Vantrúar.

Yfirlýsing Vantrúar á vef félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka