Daginn áður en Kaupþing féll voru 92 prósent af eignasafni eigin viðskipta bankans bréf í bankanum sjálfum. Síðustu fimm mánuðina fyrir fall bankans keypti hann allt að 75 prósent af öllum hlutabréfum í sjálfum sér sem voru til sölu í hverjum mánuði. RÚV segir frá þessu í sjónvarpsfréttum sínum.
Í frétt RÚV er vitnað í kæru Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara þar sem fram kemur að frá júní til október 2008 hafi nettókaup eigin viðskipta Kaupþings með hlutabréf í bankanum verið á bilinu 60 til 75 prósent af heildarkaupum í Kauphöllinni, í hverjum mánuði. Þessi kaup hafi numið 96 milljörðum króna síðasta árið fyrir fall bankans.