Íslenskar reglur um takmörkun fjármagnsflutninga eru í samræmi við EES-samninginn. Þetta er niðurstaðan í dómi sem EFTA-dómstóllinn kvað upp í dag í máli Pálma Sigmarssonar gegn Seðlabanka Íslands. Dómurinn benti á að við þær alvarlegu aðstæður sem sköpuðust á Íslandi eftir hrun væru uppfyllt skilyrði fyrir því að grípa til verndarráðstafana.
Pálmi, sem búsettur er í Bretlandi, sótti um undanþágu til Seðlabankans, frá banni við innflutningi íslenskra króna í því skyni að flytja inn til landsins 16,4 milljónir íslenskra króna sem hann hafði keypt á aflandsmarkaði. Seðlabankinn hafnaði umsókninni á grundvelli þeirra gjaldeyrishafta sem komið var á eftir hrun, og efnahags- og viðskiptaráðuneytið staðfesti þá niðurstöðu með úrskurði.
Pálmi sneri sér til Héraðsdóms Reykjavíkur og hélt því fram að ákvörðun Seðlabankans væri brot bæði á íslenskum lögum og ósamrýmanleg reglum EES-samningsins um frjálsa fjármagsnflutninga. Í fréttatilkynningu frá EFTA dómstólnum kemur fram að með dómnum sem kveðinn var upp í morgun sé veitt ráðgefandi álit um spurningar sem dómstólnum bárust frá Héraðsdómi Reykjavíkur, um túlkun 43. gr. EES-samningsins, þar sem heimild er veitt til að víkja frá reglum um frjáls flæði fjármagns.
EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði lögsögu til að endurskoða ráðstafanir sem gerðar væru samkvæmt 43. gr. EES-samningsins og leggja á það mat hvort þær uppfylltu þær kröfur sem í henni eru gerðar.
Dómstóllinn taldi jafnframt að þau efnislegu skilyrði sem kveðið væri á um í 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins útheimtu flókið mat á ýmsum þjóðhagsfræðilegum þáttum. EFTA-ríki nytu því aukins svigrúms til að meta hvort skilyrðin teldust uppfyllt og ákveða til hvaða úrræða skyldi gripið, þar sem slík ákvörðun snerist í mörgum tilvikum um grundvallaratriði við mörkun efnahagsstefnu
Dómstóllinn benti á að alvarlegar aðstæður hefðu skapast á Íslandi eftir hrun fjármálakerfisins síðla árs 2008. Við þessar aðstæður væru uppfyllt efnisleg skilyrði fyrir því að grípa til verndarráðstafana samkvæmt 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins, jafnt á þeim tímapunkti þegar reglurnar voru settar (í október 2009) sem og þegar stefnanda var endanlega synjað um undanþágu frá gildandi banni við innflutningi aflandskróna (í október 2010).
Dómstóllinn vísaði enn fremur til þess að engin gögn hefðu verið lögð fyrir dómstólinn sem bentu til þess að úrræðin sem gripið var til hafi brotið í bága við meðalhófsregluna. Þvert á móti, virtist stöðugleiki íslensku krónunnar og gjaldeyrisforðans ekki hafa náðst fyrr en sett voru gjaldeyrishöft sem bönnuðu innflutning aflandskróna. Þá brytu reglurnar sem ágreiningur málsins lyti að ekki heldur í bága við meginregluna um réttarvissu þar sem umsækjendur hefðu haft nægar upplýsingar um undanþágur frá þeim.
Dóminn í heild sinni er að finna á vefslóð EFTA-dómstólsins:www.eftacourt.int